137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja vegna þessara spurninga að fjölmiðlamálið, Íraksstríðið og Kárahnjúkar eru ekki mál sem eru sambærileg því sem við erum að ræða á þinginu þessa dagana, um mögulega umsókn að Evrópusambandinu. Í fjölmiðlamálinu var meiri hluti fyrir málinu á þingi. Það var meiri hluti á þinginu sem samþykkti að fara þá leið sem þar var lögð til. Mér kemur dálítið á óvart að hv. þingmaður skuli vera þeirrar skoðunar að Kárahnjúkamálið skuli vera þeirrar tegundar að þar hefði þurft að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla, sérstaklega þegar maður rifjar það upp að það var fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar sem tryggði nauðsynlegt atkvæði í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir því að sú framkvæmd gæti átt sér stað.

Ég hef talað fyrir því í umræðu um Evrópusambandsmálin að einföld þjóðaratkvæðagreiðsla kynni að vera nóg en það þarf að vera til staðar einhver lágmarkssamstaða um það á þinginu, einhver sem er tilbúinn til að axla hina pólitísku ábyrgð á málinu. Hér höfum við enga ríkisstjórn sem er tilbúin til þess. Við höfum tvo ríkisstjórnarflokka sem eru á öndverðum meiði í þessu máli. Annan sem ætlar að áskilja sér rétt alveg út í rauðan dauðann til að berjast gegn málinu og við höfum upplifað það í umræðu á þinginu að einstakir þingmenn eru undir ógnarþrýstingi að styðja málið gegn betri samvisku. Ég trúi því einfaldlega að við þessar aðstæður þar sem enginn breiður pólitískur grunnur er til staðar, hvorki er samstaða um það í ríkisstjórninni né á þinginu með hvaða hætti við eigum að leggja af stað í þessa ferð, þá sé nauðsynlegt að a.m.k. liggi fyrir stuðningur frá þjóðinni í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu áður en lögð er inn umsókn. Ég vek athygli á því að það er ekki einu sinni samstaða um það í þinginu hver formsatriðin eiga að vera og þá er ég t.d. að vísa til þess hvernig staðfestingu á samningnum (Forseti hringir.) eigi að vera háttað. (Gripið fram í: Er samstaða í Sjálfstæðisflokknum?)