137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Nú virðist vera að erlendar skuldir Íslands séu mun hærri en upphaflega var gert ráð fyrir þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kom til landsins í nóvember sl. Þetta hefur fastafulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins staðfest sem og Seðlabanki Íslands á fundum efnahags- og skattanefndar og fjárlaganefndar og að mér skilst fjármálaráðherra líka í morgun. Það virðist samt ríkja mikil óvissa um bæði skuldastöðu íslenska þjóðarbúsins og skuldaþol þess og því langar mig til að spyrja, þar sem nú er liðinn rúmur mánuður frá því að skrifað var undir svokallað Icesave-samkomulag, og miðað við að við bíðum enn eftir þessum upplýsingum og við fáum gefið upp allt frá 160% til 300% af vergri landsframleiðslu, þá vildi ég spyrja hv. þm. Helga Hjörvar, þingmann Samfylkingarinnar og formann efnahags- og skattanefndar, sem á einmitt að fjalla eitthvað um efnahagsmál: Af hverju var skrifað undir samkomulagið áður en þessar upplýsingar lágu fyrir og telur hv. þingmaður og formaður efnahags- og skattanefndar að það sé ekkert samhengi á milli núverandi skuldastöðu og greiðslugetu og möguleika okkar á að standa við Icesave-samkomulagið?