137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

álit Seðlabankans um Icesave o.fl.

[13:50]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir að vekja enn og aftur athygli á því að ljúka á endurreisn bankakerfisins á föstudaginn kemur. Það eru mörg álitaefni í því sambandi og ég deili áhyggjum hans af því að við séum að taka á okkur of stóran bita eða færa yfir eignir frá gömlu bönkunum yfir í nýju bankana sem eru allt of verðmiklar eða allt of dýrar m.a. vegna þess að ekki er tekið nægilega mikið tillit til gengisáhættunnar.

Það er vissulega rétt að Seðlabankinn hefur ekki áhyggjur af því að krónan muni styrkjast mjög mikið. Við búum við gjaldeyrishöft og það kom fram í máli seðlabankamanna að við getum átt von á því að þau verði að vera hér í nokkur ár í viðbót, m.a. vegna þess að við erum skuldsett þjóð sem þarf að borga hátt hlutfall af vergri landsframleiðslu í afborganir og vexti af lánum. Til þess að tryggja þennan stöðugleika þarf líka að taka lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og nota þau lán sem fara í gjaldeyrisvarasjóðinn til þess að tryggja stöðugt gengi.

Ég vil bara leggja áherslu á það í sambandi við endurreisn bankanna að það má aldrei gleymast að það voru kröfuhafarnir sem við erum að semja við núna um verðmæti eignanna sem færast á milli gömlu og nýju bankanna en ekki íslenskir skattgreiðendur sem settu bankana á hausinn. (Gripið fram í.) Þeir lokuðu lánalínunum. (Gripið fram í.)