137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

álit Seðlabankans um Icesave o.fl.

[13:56]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að blanda mér í þessa umræðu og tala um sama mál og sá sem talaði hér á undan. Ég er svo fullkomlega gáttuð á þeim ummælum sem höfð eru eftir formanni utanríkismálanefndar í morgun að ég er næstum því orðlaus. Ég spyr: Hversu langt er hægt að seilast í andúð sinni á einum manni? Þarna var vegið að starfsheiðri fólks í Seðlabankanum. Hverjir aðrir en lögfræðingar í Seðlabankanum, á lögfræðisviði Seðlabankans, ættu að vera færir um að skrifa lögfræðiálit um tiltekin atriði? ég bara spyr. Eru það hagfræðingarnir sem eiga að fara að túlka lögfræðina? Nei, það hljóta að vera lögfræðingarnir.

Mér finnst að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, sem þessi orð eru höfð eftir, eigi að standa hér í ræðustól á Alþingi og biðja þetta ágæta fólk afsökunar. Hann segir hér að það sé ekki verið að gera lítið úr sjónarmiðum þessa fólks. Ég vil leyfa mér að hafa hér eftir honum, með leyfi forseta:

„Það dregur verulega úr trúverðugleika álitsins ef það er ekki unnið fyrir hönd stofnunarinnar heldur aðeins persónulegt álit viðkomandi starfsmanns. Það er einfaldlega verið að blekkja þingnefndirnar með þessum hætti. Ég velti fyrir mér hvort menn séu þarna á einhverju einkatrippi. Fyrir mér virðist sem viðkomandi starfsmaður sé enn að vinna fyrir Davíð Oddsson.“

Ef þetta er ekki að gera lítið úr sjónarmiðum fólks veit ég ekki hvað það er. Þetta er fullkomlega óboðlegt og þingmanninum til svo fullkomlega mikillar minnkunar að (Gripið fram í: Jafnaðarmannasjónarmið.) ég krefst þess að hann komi hér og biðji þetta fólk afsökunar.

Fyrir utan það, hvernig ætlar þingmaðurinn að leysa þetta vandamál sem nærvera Davíðs Oddssonar eða fjarvera í Seðlabankanum greinilega er? Maðurinn er hættur í Seðlabankanum. Hvað á að gera? Á bara að bomba bankann og byrja upp á nýtt?