137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

vinnubrögð stjórnarmeirihlutans.

[14:01]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég ætla að vona að forseti taki þessu ekki persónulega enda snýst erindið ekki um fundarstjórnina í dag, hún hefur gengið ágætlega. Þetta snýst um það að forsetinn, sem er æðsti vörður lýðræðis í landinu og fulltrúi allra okkar þingmanna, beiti sér, aðstoði þingið í þeirri stöðu sem er komin upp og magnast með hverjum deginum þar sem framkvæmdarvaldið er farið að kúga þingið. Við urðum vitni að ótrúlegum atburði fyrir nokkrum dögum síðan þegar stjórnarþingmaður lýsti því hvernig hann hefði verið kúgaður. Þingið er sett í þá stöðu að upplýsingum er haldið frá okkur, við þurfum að grennslast fyrir um það úti í bæ hvaða upplýsingar okkur vantar. Nú er komið í ljós að enn vantar fylgigögn við hollenska Icesave-samninginn og eflaust eitthvað fleira.

Það alvarlegasta er þó að nú er ríkisstjórnin farin að beita skoðanakúgun gagnvart fólki úti í bæ. Ríkisstofnanir mega ekki tjá sig öðruvísi en að stjórnin geti sætt sig við. Nú þarf þingið að grípa til sinna ráða, frú forseti.