137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

vinnubrögð stjórnarmeirihlutans.

[14:04]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með þeim tveim ræðumönnum sem hér hafa talað. Í mínum huga er það afar mikilvægt að við gætum að ásýnd Alþingis, við gætum líka að því að hér fari fram málefnalegar umræður. Ef það er þannig að við fáum ekki gögn sem við biðjum um, ef þingmenn ríkisstjórnarinnar leyfa sér að gagnrýna á mjög ómálefnalegan og ómaklegan hátt þá sérfræðinga og starfsmenn sem vinna hjá ríkisstofnunum og eru einungis bundnir að veita fagleg ráð og skilja persónu sína fyrir utan það, þá er það grafalvarlegt mál. Þess vegna beini ég því til hæstv. forseta að hún aðstoði þingið í krafti embættis síns og leiðrétti svona vitleysu. Það er afar mikilvægt að við reynum á einn eða annan hátt að gæta að ásýnd Alþingis og það er í rauninni bara á færi hæstv. forseta að svo verði