137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:06]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu eitthvert það brýnasta mál sem hefur verið til umfjöllunar á Alþingi. Ég held að við þurfum að leita aftur til byrjunar 10. áratugarins þegar ákveðið var að samþykkja EES-samninginn til að finna sambærilegt mál. Reyndar verð ég að segja að Icesave-ríkisábyrgðin er að mínu mati jafnstórt mál vegna þess að þar getum við alþingismenn skuldbundið þjóðina og í raun steypt henni í fátækt næstu 20 árin. Ég óttast því miður að aðild að Evrópusambandinu í því árferði sem við búum við núna geti leitt til sömu niðurstöðu. Ég ætla að útskýra það í máli mínu á eftir.

Afstaða mín snýst um grundvallarhugmyndafræði. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að byggja landið þannig upp að allir, hvar sem þeir búa á landinu, fái notið sérstöðu sinnar og að við reynum að keyra á því góða sem er á tilteknum svæðum án þess að halli á önnur landsvæði. Því miður hefur reyndin verið sú að Stór-Reykjavíkursvæðið hefur sogað til sín stóran hluta af auðlindum landsbyggðarinnar, má kannski segja, vegna þess að þar er hið stóra markaðskerfi, ef stórt má kalla. Það sem ég óttast kannski mest varðandi Evrópusambandið er að það er í rauninni byggt upp á þessum markaðslegu forsendum, þ.e. að fólk, þessar um það bil 500 millj. sem búa á Evrópusambandssvæðinu, fái búið við samkeppnisskilyrði, að fyrirtækin í öllum þessum löndum fái búið við sömu samkeppnisreglur þannig að hægt sé að keppa innbyrðis. Þetta er grunnstefið í fjórfrelsinu sem er svo mikilvægt í Evrópusambandsumræðunni allri vegna þess að út af því eru allar reglur Evrópusambandsins í rauninni leiddar. Ég velti því fyrir mér hvort Ísland, sem er statt í miðju Atlantshafi í órafjarlægð frá þessu hagkerfi, geti fengið notið þeirra kjara sem önnur fyrirtæki búa við sem eru stödd í Evrópu. Evrópusambandið hefur reynt að leiðrétta þetta á einhvern hátt með styrkjum fyrir þá sem búa á jaðri Evrópusambandsins en því miður, eins og þjóðir sem hafa nýlega gengið í Evrópusambandið hafa bent á, eru styrkirnir miklu fátæklegri en þeir voru í upphafi.

Að öðru leyti vil ég benda á að í mínum huga snýst þessi hugmyndafræði um það hvort við viljum búa til hagkerfi sem er algerlega með fasta krónu. Með öðrum orðum, verðbólgan verði lág og krónan föst en hagkerfið muni sveiflast á móti vegna þess að við verðum að horfast í augu við það að alveg eins og menn ræddu á 7. og 8. áratugnum þá er hagkerfið okkar þannig lagað lítið. Við erum með tvær grunnstoðir, sjávarútveg og nú áliðnað sem skaffar okkur útflutningstekjur á næstu árum en þegar verða sveiflur í þessum atvinnugreinum sem og öðrum þá mun það eitt gerast að mínu mati að atvinnuleysi mun aukast. Þá lendum við í sömu sporum og Spánverjar eru að gagnrýna núna og þeir segja: Við höfum engin tæki til að bregðast við þeirri efnahagskreppu sem núna er komin upp í heiminum vegna þess að evran fastsetur okkur algerlega og við getum ekki notað hagstjórnarleg tæki til að vinna bug á því gríðarlega mikla atvinnuleysi sem er nú viðvarandi. Á Spáni er það um 20%. Ég tel það meira virði, og það út frá því byggi ég þessa skoðun mína á Evrópusambandinu, að við séum með krónu eða gjaldmiðil sem endurspeglar hagkerfið og við getum notað þann gjaldmiðil til að koma í veg fyrir atvinnuleysi. Ég er þeirrar skoðunar að atvinnuleysi sé eitthvert það mesta böl sem sérhver maður getur lent í og ég held að við sem þjóð, fámenn þjóð í stóru landi þolum það verr en aðrar þjóðir. Íslendingar eru vanir að vinna og berjast fyrir sínum hagsmunum. Ef það er tekið af þeim held ég að við séum afar illa sett.

Ríkisstjórnarflokkarnir báðir hafa ákveðið að leggja fram þá þingsályktunartillögu sem er til umræðu. Einstakir þingmenn Vinstri grænna hafa lýst því yfir að þeir ætli að greiða atkvæði á móti þingsályktunartillögunni. Sumir hafa meira að segja gengið það langt að þeir segjast ætla að greiða atkvæði gegn samningi jafnvel þó að þjóðin samþykki fyrir sitt leyti samningana en eins og menn vita er þjóðaratkvæðagreiðslan ekki bindandi. Þeir ætla ekki að lúta sem sagt vilja þjóðarinnar og greiða atkvæði með henni, í samræmi við vilja hennar heldur ætla þeir að halda fast við afstöðu sína. Það sem gleymist hins vegar í þessu máli er að þeir eru þeir í ríkisstjórn, þessir þingmenn Vinstri grænna og þessi ríkisstjórn með fulltingi Vinstri grænna er að leiða málið inn til atkvæðagreiðslu. Það eru Vinstri grænir sem eru að leiða málið fyrir, eins og ég hef orðað það áður, aftökusveit þingsins vegna þess að það þarf í rauninni ekki marga til að reikna út hvernig atkvæðagreiðslan fer fram. Ég veit að þetta eru stór orð (Gripið fram í.) en málið er tapað um leið og er ákveðið að fara með það í atkvæðagreiðslu. Afstaða einstakra manna skiptir í sjálfu sér engu máli eftir á að hyggja þegar vitað er að meiri hluti þingmanna muni keyra þetta í gegn.

Hér hafa ýmsir, einkum þingmenn Samfylkingarinnar, verið að reyna á einn eða annan hátt að túlka stefnu Framsóknarflokksins. Það finnst mér afar undarlegt vegna þess að ég hef verið í þessum þingflokki hvað lengst af þeim þingmönnum sem eru í honum núna. Þó að ég hafi ekki margra ára þingreynslu eru þetta að verða nokkur ár. Mig langar í örstuttu máli að fara yfir tvær síðustu ályktanir flokksþings Framsóknarflokksins og taka kannski fyrst þá ályktun sem var við lýði áður en síðasta flokksályktun var samþykkt. Þetta er í rauninni sú ályktun sem ég tel að hafi verið megingrundvallarákvörðun flokksins en þar segir, með leyfi forseta:

„Samskipti Íslendinga við Evrópusambandið byggjast fyrst og fremst á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Full ástæða er til þess að þróa frekar það samstarf þar sem það á við. Langvarandi jafnvægi og varanlegur stöðugleiki í efnahagsmálum er ein meginforsenda hugsanlegrar aðildar að Evrópusambandinu.“

Þetta eru að mínu mati algjör lykilorð, frú forseti.

Svo segir:

„Þannig geta Íslendingar byggt ákvarðanir sínar á styrkleika og í samræmi við sinn eigin þjóðarmetnað sem frjáls þjóð.“

Síðan koma hér leiðir að þessari upplýstu umræðu, óháð flokkadráttum og ég ætla ekki að fara neitt nánar í það en vek athygli á þessum orðum: „Langvarandi jafnvægi og varanlegur stöðugleiki í efnahagsmálum er ein meginforsenda hugsanlegrar aðildar að Evrópusambandinu.“ Þessi skilyrði voru aldrei til staðar hér á síðustu árum og eru svo langt, langt, langt frá því að vera til staðar nú í augnablikinu og þessi skilyrði í rauninni hafa aldrei verið uppfyllt þannig að í sjálfu sér var aldrei grundvöllur fyrir því af hálfu flokksins út frá þessari ályktun að fara í viðræður við Evrópusambandið.

Svo gerist það á hinu fræga flokksþingi Framsóknarflokksins sem haldið var núna í janúar að flokkurinn tekur í rauninni nýja stefnu í Evrópumálum. Svo undarlega sem það kann að hljóma virðist mér að orðið „skilyrði“ þýði allt í einu eitthvað allt, allt annað en bara það sem það þýðir. Skilyrði er í rauninni eitthvað sem menn setja sér sem forsendur í samningaviðræðum, í samtölum, forsendur fyrir ákvörðun sem á að taka. Ef þetta eru skilyrði þýðir þetta ekki leiðir. Þess vegna hét þetta leiðir í gamla flokksálitinu en skilyrði í nýja álitinu. Það var að mínu mati grunnforsenda þess að meiri hluti flokksmanna ákvað að fallast á tillöguna.

Skilyrðin eru hörð og þau eru þannig að þingmenn bæði Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks hafa sagt að þau séu það sterk að Evrópusambandið þyrfti að ganga í Ísland til þess að þau yrðu uppfyllt. En til þess var leikurinn gerður. Við eigum hér auðlindir til sjávar og sveita sem við getum ekki undir neinum kringumstæðum gefið eftir, jafnvel þó að það væri bara lítið brot. Hvort sem menn vilja sætta sig við það eða ekki eru þetta einmitt þær auðlindir sem munu gera það að verkum að það verður gott að búa á Íslandi í framtíðinni. Að vísu segi ég þetta með þeim fyrirvara að við höfnum Icesave-skuldbindingunum vegna þess að þar er um svo miklar og stórar stærðir að ræða að ég efast um að við getum nokkurn tíma staðið undir þeim skuldbindingum og þá skiptir í rauninni engu máli hvort við eigum hér góðar auðlindir — sem reyndar hafa verið settar að veði í Icesave-samningunum.

Nú hafa þrír þingmenn Framsóknarflokksins lýst því yfir á þingflokksfundi og hér í ræðustól að þeir séu fylgjandi þeirri ályktun sem hér er til umræðu og muni greiða atkvæði með henni og gegn tvöföldu þjóðaratkvæðagreiðslunni. Ég segi: Það er allt í góðu. Þetta eru mál sem á ekki að ræða á flokkspólitískum grunni, eins og ég veit að hv. þingmaður Vinstri grænna er sammála mér um enda er hans flokkur algjörlega klofinn í afstöðunni, og ég held að það eigi ekki að reyna að nota þetta mál sem einhvers konar vopn í valdabaráttu innan hvaða flokks sem er enda stend ég í þeirri trú að það hafi ekki verið gert, ekki a.m.k. núna á síðustu vikum.

Hvernig er það þá með þessa þingsályktunartillögu sem nú liggur fyrir? Getur verið, eins og hefur verið fullyrt, að skilyrði Framsóknarflokksins komi fram í þeirri ályktun? Er það þannig að þessi afmörkuðu skilyrði Framsóknarflokksins komi fram í þingsályktunartillögunni? Ég segi: Svarið er nei, það er ekki. Það er hvergi í þingsályktunartillögunni hægt að finna skilyrðum Framsóknarflokksins stað. Í rauninni er bara ein málsgrein í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar sem sker algjörlega úr um þennan þátt.

Þar segir, með leyfi forseta, á bls. 24 þar sem fjallað er um skilyrt umboð (Gripið fram í.) :

„Nefndin ræddi um þann kost að setja umboði ríkisstjórnarinnar til að sækja um aðild að ESB afmörkuð skilyrði.“ — Það var rætt. — „Fram kom á fundum nefndarinnar að engin fordæmi væru fyrir því að ríki hafi sótt um aðild að ESB með ákveðnum skilyrðum.“

Síðan nefnt að Austurríki og Tékkland hafi í umsóknum sínum vikið sérstaklega að hlutleysi sínu og Tékkland hafi lýst nánar grunninum að aðildarumsókninni. Svo segir að að ekki sé hægt að segja að í þessum tveimur tilvikum hafi verið sett skilyrði:

„Nefndin hefur fjallað ítarlega um þá meginhagsmuni sem stjórnvöldum ber að hafa að leiðarljósi í aðildarviðræðum við ESB. Mat meiri hlutans er að það sé fullnægjandi veganesti fyrir stjórnvöld og“ — lykilsetning, hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, af því að þú varst að kalla hér fram í: „Mat meiri hlutans er að það sé fullnægjandi veganesti fyrir stjórnvöld og að tiltekin skilyrði í umboði ríkisstjórnarinnar muni ekki skila neinu umfram það.“ (Gripið fram í: Umfram það.) Umfram það.

Þetta verður ekki skilið nema samkvæmt orðanna hljóðan. (Gripið fram í: Lestu meira.) Það eru sem sagt engin skilyrði sett, (Gripið fram í.) það eru engin skilyrði. (Gripið fram í: Lestu meira.)

Síðan segir, alveg rétt og ég skal vera sanngjarn með það, að meiri hlutinn leggur til að fylgt sé þeim leiðbeiningum — nú heita þetta ekki lengur skilyrði, þetta eru orðnar leiðbeiningar — „sem gefnar eru með áliti þessu um þá grundvallarhagsmuni sem um er að ræða“.

Virðulegi forseti. Jafnvel þó að hv. formaður utanríkismálanefndar sé þeirrar skoðunar að hægt sé að túlka þetta þannig að skilyrðin séu þarna, jafnvel þó að það segi að þau séu ekki þarna, þá finnst mér það með hreinum ólíkindum. Ég ætla nefnilega að benda á máli mínu til stuðnings að þetta er nákvæmlega það sama og við stóðum frammi fyrir hér þegar við vorum að ræða Icesave-málið. Þar var þingsályktunartillaga um að Alþingi mundi ákveða að það yrðu hafnar einhvers konar samningaviðræður, studdar því að á bak við ályktunina væru einhvers konar Brussel-viðmið sem yrði algjörlega farið eftir í samningaviðræðunum.

Það var ekki gert. Nú er það samdóma álit þeirra lögfræðinga sem hafa farið yfir samningana að Brussel-viðmiðin muni ekki koma til skoðunar þegar samningarnir verða túlkaðir í framtíðinni. Meira að segja kemur fram í tölvupósti frá utanríkisráðuneytinu, mig minnir að það sé frá utanríkisráðuneytinu, að þeir vekja athygli á því að Brussel-viðmiðin hafi bara fokið út um gluggann.

Þá þurfa menn að átta sig á því að jafnvel þó að menn setji einhvers konar fyrirvara í umræðunni eða hugsanlegan fyrirvara í greinargerð þá skiptir það ekki máli þegar til kastanna kemur. Þingsályktunartillögur og lagafrumvörp á fyrst og fremst að skýra samkvæmt orða þeirra hljóðan. Þetta er meginregla í íslenskum rétti, þetta er meginregla í samningsrétti sem viðgengst í Evrópu. Það á að túlka þetta samkvæmt orðanna hljóðan og hv. þm. Árni Þór getur reynt að blekkja þjóðina og fleiri þingmenn með því að þessi skilyrði séu þarna einhvers staðar á bak við í leyni, í laumi, (Gripið fram í.) en þau eru það ekki, kannski líka vegna þess að það segir hér í nefndaráliti meiri hluta að það hafi verið ákveðið að setja ekki þessi sérstöku skilyrði. (Gripið fram í.) Já, þetta er ágætt nefndarálit, þess vegna er ég að vísa í það orða þess hljóðan.

Svo við setjum nú upp dæmið, hvað mun gerast í framtíðinni þegar búið verður að fara í þessar samningaviðræður og samningurinn liggur fyrir? Jú, þá mun gerast nákvæmlega það sama og með Icesave-samninginn. Menn munu segja: Það verður að samþykkja þennan samning, það verður að gerast jafnvel þó að skilyrðin séu hvergi, jú, reyndar leynast þau þarna kannski, hugsanlega (Gripið fram í.) alveg eins og með Icesave-samninginn, Brussel-skilyrðin eru þarna einhvers staðar kannski, e.t.v. ekki. Þau eru bara ekki. Þá mun reynt að troða því ofan í þjóðina að hún verði að samþykkja. Ef það gengur ekki mun hræðsluáróðurinn byrja alveg eins og í Icesave-málinu, að við séum nauðbeygð til þess að gerast aðilar að Evrópusambandinu, við séum nauðbeygð út frá efnahagslegum forsendum og þeir sem greiði atkvæði gegn samningnum séu að stofna þjóðinni í hættu alveg eins og er fullyrt núna með Icesave-samninginn.

Vandamálið með Icesave-samninginn er að það eru engin gögn og engin rök sem benda til þess að okkur sé einhver hætta búin við það að samþykkja hann ekki. Ég skal fallast á það að það verður ákveðin óvissa í gangi en það verður jafnvel meiri óvissa ef við samþykkjum Icesave-samninginn.

Ég er ansi hræddur um að við séum komin á þessa leið og þá bið ég menn að íhuga mjög alvarlega hvað gerðist hér varðandi Icesave-skuldbindinguna og hvernig hefur verið staðið að þeim málum allan tímann. Ég verð að segja að fyrir mitt leyti skiptir í sjálfu sér engu máli hverjir halda á samningaviðræðunum fyrir hönd Íslendinga, ég held bara að við megum aldrei gera eins og var gert varðandi Icesave-samningana að menn verði ráðnir þar inn á pólitískum forsendum og það hafi verið látið hjá líða að ráða færustu sérfræðinga. Við verðum að vera með okkar færustu sérfræðinga í mögulegum samningaviðræðum, ef það verður samþykkt, sem eru ekki í pólitísku stappi heldur starfi einfaldlega á faglegum forsendum.

Kannski má benda á það, af því að menn hafa verið að ræða hvað það kostar að fara í aðildarviðræður þá erum við að tala um brotabrotabrotabrot af því sem við erum að ræða varðandi Icesave-samningana. Einn milljarður, tveir milljarðar skipta engu máli þegar við erum að kasta út tugum milljarða ef ekki hundruðum milljarða að óþörfu út af Icesave-samningunum. Það er m.a.s. þannig í Icesave-samningunum að við erum knúin til þess að borga meira en maður gæti talið eðlilegt að væri hægt að beygja okkur til, en það er annað mál.

Ég held að í ljósi þess að skilyrði Framsóknarflokksins er hvergi að finna þá sé rétt að þjóðin fari í tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég var þeirrar skoðunar þegar ég hafði þá trú að menn mundu fara með skilyrðin í viðræðurnar og það væru forsendur sem menn mundu gefa sér og því væri óhætt að fara í aðildarviðræðurnar en ég tel það ekki lengur. Það hefur í rauninni verið sagt við þjóðina og margir trúa því að við getum farið og kannað það sem er í pakkanum, kannað á einhvern hátt hvað Evrópusambandið hefur upp á að bjóða. Ég held að þetta sé einhver stærsta blekking Íslandssögunnar. Við erum að fara í aðildarviðræður á þeim einu forsendum að við viljum fara í Evrópusambandið. Ef menn vilja kanna hvað þeir geta fengið þá hefði þeim verið í lófa lagið að senda fram sveit vaskra manna til þess einfaldlega að fá úr því skorið um hvað væri hugsanlega hægt að semja og hvað ekki. En um hvað erum við að semja? Ég ætla að koma inn á það aðeins á eftir.

Við verðum að halda lýðræðishugsjóninni á lofti. Þjóðin á að ákveða hvort hún á að fara í aðildarviðræður. Ég held að það sé mjög sanngjarnt. Ég held líka að þjóðin eigi að fá að kjósa um Icesave-skuldbindingarnar. Ég veit að hv. þingmenn Vinstri grænna voru eitt sinn sammála mér þó þeir virðist vera komnir á aðra skoðun. Formaður Vinstri grænna sagði eitt sinn, af því að nú er því haldið fram að þetta mál sé of flókið fyrir þjóðina, að þeir sem héldu því fram væru hjáróma og að ömurlegri málflutningur fyndist ekki. Nú eru Icesave-samningarnir of flóknir fyrir þjóðina en hvað er þá ESB-samningurinn?

Göran Persson sagði eitt sinn þegar hann hafði nýlega tapað þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Svíar ættu að taka upp evru að hann teldi að samningar á Evrópska efnahagssvæðinu væru of flóknir fyrir þjóðina. Það sagði hann vegna þess að hann vissi að hann mundi tapa þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er mitt mat að það var eina ástæðan. Núna er Icesave sem sagt of flókið en ekki ESB. Það verður því miður að segjast alveg eins og er að þetta er einhver sorglegasti málflutningur sem hefur verið haldið uppi í sölum Alþingis og ég held að ekki þurfi að rökstyðja það neitt nánar.

Þá kem ég aftur að þessari fullyrðingu: Við vitum ekki hvað við fáum. Við fáum Evrópusambandið með öllu því sem það hefur upp á að bjóða. Evrópusambandið í sinni tærustu mynd. Einstaka þjóðir hafa haft fyrirvara og hafa fengið undanþágur en engin af þeim undanþágum er varanleg. Þær verða teknar til skoðunar og þá er alls kostar óvíst hvort við sem þjóð, Alþingi Íslendinga, fáum einfaldlega að fjalla um það mál. Ef við ætlum t.d. að gefa eitthvað eftir af sjávarútvegsstefnu okkar, og ég get ekki séð annað en að við munum þurfa að gera það á einhvern hátt, munum við einfaldlega standa frammi fyrir því að það verður ákvörðun í Brussel sem mun leiða til þess að fyrirvaranum verður hent út. Ætla menn þá að fara út úr Evrópusambandinu? Það er hægara sagt en gert. Þá stöndum við líka uppi algerlega nakin á alþjóðavettvangi.

Hv. þingmaður Samfylkingarinnar, ég man ekki nafnið í augnablikinu, sagði að það væru fullvalda þjóðir sem væru aðilar að Evrópusambandinu og þær héldu fullveldi sínu. Hann viðurkenndi jafnframt, heiðarlega að mínu mati, að það væri verið að gefa eftir hluta af fullveldinu. Það verða menn að hafa í huga að við erum að gefa eftir hluta af fullveldinu, fullveldi sem við börðumst fyrir í mörg hundruð ár, fullveldi sem gerir þjóðina að því sem hún er í dag. Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki skynsamlegt. Ég er þeirrar skoðunar að það sé alltaf betra að við tökum ákvarðanir út frá okkar eigin forsendum en við látum ekki yfir okkur ganga einhverjar ákvarðanir sem eru teknar á forsendum einhverra annarra. Ég vara við því að við tökum úr sambandi það löggjafarvald sem við höfum vegna þess að það hefur leitt til afar óhagstæðrar niðurstöðu, sérstaklega fyrir landsbyggð þessarar þjóðar en ég ætla að koma að því á eftir ef mér gefst tími þá í seinni ræðu.

Það er talað um að við vitum ekki hvað við fáum og við þurfum að kanna það. Þá verða menn að átta sig á því að við erum þátttakendur í Evrópska efnahagssvæðinu. Við erum þátttakendur í EES-samningnum. Við göngumst í rauninni undir allar tilskipanir og reglugerðir frá Evrópusambandinu sem eru gefnar út fyrir utan tvo þætti, sjávarútveg og landbúnað, bara þessa tvo þætti. Það eina sem við gætum þá hugsanlega samið um umfram þetta er krónan. Hvort við séum betur sett með evruna eða krónuna. Þrír þættir sem við þurfum að semja um, það er búið að ganga frá öllum hinum þáttunum. Við yfirtökum fjórfrelsið með öllum þess kostum og göllum. Ég vil bara leiðrétta þann misskilning vegna þess að hér er sagt, meira að segja af æðstu ráðamönnum þjóðarinnar, að við verðum einangruð ef við göngum ekki í Evrópusambandið. Erum við einangruð í dag með EES-samninginn? Nei, við erum það ekki. Ungmenni okkar, fyrirtæki, launþegar, verkafólk getur ferðast meðal allra aðildarríkja Evrópusambandsins og tekið sér þar búsetu og unnið þar. Fyrirtækin okkar geta stofnað útibú og dótturfyrirtæki allt á þessum reglum sem við höfum yfirtekið, reyndar með alvarlegum afleiðingum í Icesave-málinu.

Þá verðum við að taka til skoðunar og það er kannski eitt af því sem hefur ruglað svolítið umræðuna á undanförnum mánuðum að það hefur aldrei mátt gagnrýna þennan EES-samning. Það hefur enginn mátt segja neitt slæmt um EES-samninginn jafnvel þó að hann vinni á margan hátt gegn hagsmunum Íslendinga. Það er nefnilega líka þannig að við tókum út að hluta eins og ég sagði áðan lagasetningarvald Alþingis. Ég ætla að rekja annars vegar góðu hliðarnar og hins vegar slæmu hliðarnar á EES-samningnum, byrja á slæmu og nefna sem dæmi að þegar Síminn var seldur stofnuðum við Fjarskiptasjóð. Þennan Fjarskiptasjóð átti að nota til að koma á internetsambandi í öllum byggðum landsins, gera allar byggðir landsins jafnsamkeppnishæfar. Það mátti hins vegar ekki beita Fjarskiptasjóði vegna þess að reglur Evrópusambandsins, sérstaklega fjórfrelsið bannar það að ríkið sé í samkeppni þar sem einkafyrirtæki eru fyrir á markaði. (Gripið fram í.) Já, ég ætla svo að koma inn á Íbúðalánasjóð á eftir. Það mátti ekki beita Fjarskiptasjóði sem þýddi það að við erum fyrst núna að fá almennilega nettengingu í byggðum landsins sem hefðu verið fyllilega samkeppnishæfar með mun ódýrari húsnæðisverð ef þessi tenging og þessi eðlilegi samskiptamáti hefði verið til staðar. Það voru reglur EES sem stóðu í vegi fyrir því.

Við getum líka nefnt Íbúðalánasjóð, aðförina sem var háð að Íbúðalánasjóði. Við framsóknarmenn höfum alltaf staðið vörð um Íbúðalánasjóð og teljum að það verði að vera sjóður sem tryggir fólki hvar sem það býr á landinu, hvernig sem það er í stakk búið efnahagslega, hvort það sé ríkt eða fátækt, það geti átt þak yfir höfuðið. Þess vegna höfum við barist fyrir því að Íbúðalánasjóður sé til. Hins vegar má færa rök fyrir því eins og Eftirlitsstofnun EFTA hefur bent á að hann sé í samkeppni við einkafyrirtæki. Það er því EES-samningnum að kenna að það hefur verið stríð um Íbúðalánasjóð. Ef við hefðum staðið frammi fyrir því að við hefðum misst hann út úr höndunum, ef við hefðum ekki haft Íbúðalánasjóð, hvar hefði þjóðin þá verið stödd með bankana í öllu sínu veldi og hvernig þeir höguðu sér á íbúðalánamarkaðnum? (Gripið fram í.) Það er gott, hv. þingmaður.

Mig langar að fara aðeins yfir þessa góðu hluti sem áttu að hafa komið með EES-samningnum. Við skulum aðeins rifja upp að fyrir nokkrum árum síðan voru menn að keppast um það hverjum væri að þakka íslenska efnahagsundrið. Einstaka menn sögðu að einkavæðingin hefði hjálpað til. Svo voru aðrir, sérstaklega samfylkingarmenn sem sögðu: Þetta er allt saman EES-samningnum að þakka. Það er EES-samningnum að þakka að hér er góðæri, að kaupmáttur launa hefur aukist o.s.frv. Nú hefur komið í ljós að efnahagsundrið var blekking, það var loftbóla. Getum við þá ekki gagnályktað og sagt: Var það EES-samningnum að kenna að svo fór sem fór? Var EES-samningurinn svo illa úr garði gerður að það hafi verið honum að kenna að við stöndum í þeim sporum sem við erum í dag? Munum þá að á grundvelli EES-samningsins voru íslensk stjórnvöld nauðbeygð til að selja íslenska ríkisbanka, nauðbeygð til að selja á grundvelli fjórfrelsis. Ríkið mátti ekki vera í samkeppni þar sem fyrir voru einkafyrirtæki. Þetta er stórmál.

Það var líka á grundvelli EES-samningsins sem einstakir bankamenn og útrásarvíkingar gátu stofnað útibú Landsbankans í Bretlandi, á grundvelli EES-samningsins. Þegar við förum yfir þessa sögu verðum við að leyfa okkur í umræðunni að gagnrýna EES-samninginn. Hvernig sem fer, hvort sem við förum inn í Evrópusambandið — reyndar er EES-samningurinn úti ef við förum inn í Evrópusambandið — en ef aðildarsamningi verður hafnað verðum við að skoða EES-samninginn, hvernig og hvort hann þjónar hagsmunum íslensku þjóðarinnar og það verður að gera út frá málefnalegum forsendum.

Ég hef stuttan tíma en vil koma inn á það í seinni ræðu að ræða krónuna. Samfylkingarmenn sérstaklega, og þar hefur kannski látið hæst fyrrverandi viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, hann hefur sagt: Krónan er ónýt. (Gripið fram í.) Varðhundur krónunnar sagði að hún væri ónýt. Ég benti á það í ræðu fyrr í vetur að ef fulltrúar þjóðarinnar kæmu fram og segðu alltaf að krónan væri ónýt, þá gæti hún ónýst af þeim sökum einum og sér. En krónan er í raun ekkert annað en gjaldmiðill sem á að endurspegla hagkerfið okkar og á í rauninni að sveiflast með hagkerfinu. Hún á að anda með hagkerfinu.

Einu sinni gátu Íslendingar handstýrt krónunni. Þeir gátu fellt hana með einu handtaki og menn hafa sagt að það hafi verið gott að losna við það. En af hverju gerðu menn þetta? Það var vegna þess að þenslan og vöruskiptajöfnuðurinn var svo óhagstæður Íslendingum og íslenskum útflutningsfyrirtækjum sérstaklega að það varð með ýmsum hætti að bregðast við. Þess vegna felldu menn krónuna. En af hverju gerðu menn það? Jú, það var til að koma í veg fyrir atvinnuleysið. Síðan tökum við upp EES-samninginn og setjum krónuna á flot. Ég held að það hafi einfaldlega verið gerð stór mistök þegar krónan hætti að endurspegla hagkerfi Íslendinga og þá vita menn hvað gerðist. Þegar þetta var gert óttuðust menn að erlendir óprúttnir aðilar mundu taka stöðu gagnvart krónunni og hún mundi veikjast þannig. Það voru Íslendingar sjálfir sem gerðu það, íslenskir bankamenn sem léku þann leik.

Virðulegi forseti. Eins og ég hef sagt mjög skýrt mun ég ekki greiða atkvæði með þessari þingsályktunartillögu. Ég mun greiða atkvæði með tvöfaldri þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég held að það sé sanngjarnt og ég skil ekki hvernig menn treysta þjóðinni á annan kantinn en ekki hinn kantinn. Af hverju treysta menn ekki einfaldlega þjóðinni til að taka ákvörðun hvort hún vilji fara í aðildarviðræður? Við höfum málefnalega umræðu, hvað við erum að gera, hættum blekkingaleiknum um að við þurfum að kíkja í pakkann, látum þjóðina skera úr. Það er lýðræðið, hæstv. forseti, og ég held að það sé það sem við þurfum kannski fyrst og fremst að gæta að á þessum tímum. Það er að við höldum í réttarríkið og lýðræðið.