137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:44]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða þingsályktunartillögu um aðildarviðræður við Evrópusambandið. Margir hafa spurt sig af hverju þetta mál sé yfir höfuð komið hér á dagskrá. Í raun má segja að umræða um þessi mál hafi verið mjög áberandi í íslenskum stjórnmálum á undanförnum árum. Í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar er farið allrækilega yfir söguna, þ.e. hvernig Evrópumálin hafa verið tekin til umræðu í íslenskum stjórnmálum. — Það er gott að heyra að fyrstu orð mín hafa greinilega sterk og djúpstæð áhrif á þingheim. — Á bls. 5 í nefndarálitinu er farið yfir þá vinnu sem hefur staðið yfir undanfarin ár, þær nefndir sem hafa starfað allt frá því að farið var að ræða það að gerast aðilar að EES-samningnum. Hér er því lýst að á árinu 1988 setti Alþingi á fót Evrópustefnunefnd. Síðan er farið yfir það þegar EES-samningurinn var samþykktur, skýrslur teknar saman á árinu 1995 og 2000. Síðan má segja að umræðan hafi verið samfelld allt frá árinu 2004 þegar Evrópunefnd starfaði undir forustu Björns Bjarnasonar sem ég sat í ásamt fleiri hv. þingmönnum. Nefndin skilaði skýrslu árið 2007. Síðan tók við Evrópunefnd sem var undir formennsku fyrrverandi hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar og hv. þm. Illuga Gunnarssonar sem skilaði svo áfangaskýrslu fyrr á þessu ári.

Það má því segja um þetta mál að það hafi þegar sett talsverðan lit á pólitíska umræðu og spurningin verið sívakandi í stjórnmálaumræðu á Íslandi, ekki síst fyrir síðustu kosningar eins og hv. þingmenn þekkja. Þetta er ekkert einsdæmi fyrir Ísland því þetta er auðvitað mál sem hefur verið til umræðu í öllum Evrópuríkjum á einhverjum tíma. Ég nefni sérstaklega Noreg sem dæmi sem er í þeirri stöðu að vera utan Evrópusambandsins eins og við Íslendingar en hefur þegar fellt aðildarsamning í þjóðaratkvæðagreiðslu, síðast 1994 en einnig áður.

Þetta er því mál sem hefur ekki einungis verið til umræðu hér, það hefur verið til umræðu í öllum stjórnmálaflokkum og er auðvitað athyglisvert að skoða hvernig sú umræða hefur þróast. Í skýrslunni sem skilað var, eða áfangaskýrsla var það kallað, sem síðasta Evrópunefndin skilaði 17. apríl ef ég man rétt, þá skila flokkarnir allir sérálitum sem er áhugavert að skoða nú því þó að fáir mánuðir séu liðnir má kannski segja að ýmislegt hafi þegar þróast í umræðunni.

Það kemur fram sérálit Framsóknarflokks sem er mjög andstætt þeirri breytingartillögu sem fyrir liggur frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur og það er sérálit þess flokks sem ég tilheyri, Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Vinstri hreyfingin – grænt framboð telur nú sem fyrr að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins“ og nefnir þar sérstaklega forræði yfir auðlindum þjóðarinnar, ekki síst sjávarauðlindinni, of ríka markaðshyggju í stefnumótun sambandsins og þann lýðræðishalla sem íþyngir stjórnkerfi sambandsins. Þessi atriði ætla ég að ræða á eftir en svo kemur síðari hluti þessa sérálits:

„Sjálfsagt er og brýnt að fram fari opin og lýðræðisleg umræða um samskipti Íslands og sambandsins. Landsfundur VG leggur áherslu á að aðild Íslands að ESB eigi að leiða til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Landsfundur telur mikilvægt að fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu fái rækilega umræðu og almenn samstaða náist um lýðræðislega málsmeðferð.“

Þetta er í anda þeirrar samþykktar sem síðar var samþykkt á landsfundi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þar sem við ítrekum það og leggjum áherslu á, með leyfi forseta, „að aðild Íslands að ESB eigi að leiða til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu“ og síðan er farið rækilega yfir það mál. Þetta er það sem við sögðum líka í aðdraganda síðustu kosninga að þó að okkar afstaða væri sú að Ísland ætti best heima utan Evrópusambandsins og við höfum fyrir því ýmsar ástæður og þær eru ekki einu sinni eins hjá öllum okkar flokksmönnum og ekki eins hjá öllum þingmönnum. Þetta er mjög flókið mál sem hér um ræðir.

En við höfum líka lagt áherslu á það, a.m.k. gerði ég það í aðdraganda þeirra kosninga sem síðast fóru fram, að þetta mál ætti að leiða til lykta með þjóðaratkvæðagreiðslu og taka til umræðu á þeim vettvangi. Mér finnst það vera ákveðið lykilatriði í þeirri tillögu sem hér er til umræðu að það skiptir máli að þjóðin komi að þessu máli. Þetta hefur þegar verið til umræðu á hinu pólitíska sviði í allmörg ár.

Sérálit Sjálfstæðisflokksins í þessari skýrslu snýst nánast eingöngu um efnahagshliðar málsins. Þar er rætt um að það sé mikilvægt að sátt náist milli allra stjórnmálaflokka um áframhaldandi málsmeðferð, með leyfi forseta, en að helsti kostur þess að taka upp nánara samstarf við Evrópusambandið er að mati flestra sá efnahagslegi stöðugleiki sem fælist í því að geta tekið upp hinn sameiginlega gjaldmiðil Evrópusambandsins, evruna. Evrópusambandið hefur hins vegar ekki verið til viðræðu til þessa um að önnur ríki taki upp evru án fullrar aðildar að sambandinu. Sú staða virðist hins vegar vera að breytast. Síðan er rætt áfram um þessa möguleika. En út frá ræðu hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar áðan þá held ég að þessi mál verði líka áfram til umræðu, ekki bara í Sjálfstæðisflokknum heldur hjá þjóðinni allri, þ.e. hvort evrusamstarf skilar endilega þeim kostum sem talið hefur verið hingað til. Hv. þingmaður færði nokkuð sannfærandi rök fyrir máli sínu áðan um að ýmsar blikur væru á lofti í málum þessa gjaldmiðils, bæði hvað varðar samstarf og annað fyrir utan auðvitað þá staðreynd að það er engin vissa fyrir því og í raun mjög ólíklegt að Íslendingar geti tekið upp evru þótt þeir sæktu um aðild á morgun að Evrópusambandinu.

Annað atriði sem mér hefur þótt mjög mikilvægt að halda til haga í umræðunni eru þessir svokölluðu meginhagsmunir í samskiptum Íslands og Evrópusambandsins og hvar meginhagsmunir Íslands liggja gagnvart Evrópusambandinu. Eiginlega má segja að þetta mál sé kannski þríþætt. Það er ef við horfum á það út frá hagsmunum Íslendinga gagnvart Evrópusambandinu, ef við horfum á það út frá Evrópusambandinu sjálfu hvernig það er að þróast og síðan út frá Íslendingum sjálfum hvernig við lítum á okkur í samfélagi þjóðanna.

Ef ég byrja á hagsmunum Íslendinga og íslensku þjóðarinnar þá var um það rætt í síðustu Evrópunefndinni sem starfaði hver væri eiginlega munurinn á hagsmunum almennt og þeim hagsmunum sem telja má brýna. Ég held að enska orðið „vital“ hafi verið notað og mætti jafnvel kalla nauðsynlega þjóðinni og hvaða hagsmuni mætti telja síður mikilvæga. Ég tel mjög mikilvægt ef áfram verður haldið á þessari braut að sú umræða fari fram, þ.e. hvaða hagsmuni teljum við þessari þjóð lífsnauðsynlega. Þá víkjum við að því sem stendur út af því að auðvitað erum við aðilar að EES-samningnum. Margir hafa rætt hann að undanförnu í tengslum við annað mál sem hefur verið til umræðu og þær tilskipanir sem við höfum tekið upp í gegnum þann samning en það eru þau mál sem standa út af, þ.e. sem heyra ekki undir EES-samninginn. Það er sjávarútvegurinn, landbúnaðurinn og byggðamálin, það eru orku- og auðlindamálin, umhverfismálin að hluta. Yfir þetta er svo farið í þessu ágæta nefndaráliti. Það eru gjaldmiðilsmálin, almannaþjónusta og félagsleg mál, öryggis- og varnarmál, skatta- og tollamál sem hafa verið í höndum ríkjanna og fjármál aðildarríkjanna. Yfir þetta er farið ágætlega í þessu nefndaráliti en mig langar að hnykkja á nokkrum hlutum þar.

Sjávarútvegsmálin hafa kannski verið þau sem má telja til brýnustu hagsmuna Íslendinga. En í skýrslu Evrópunefndarinnar sem skilaði árið 2007 kemur fram, með leyfi forseta, í umfjöllun um stöðu sjávarútvegs og ég ætla aðeins að minna á það að sjávarútvegur hefur lengi verið mikilvægasti útflutningsatvinnuvegur Íslendinga. Útflutningsverðmæti sjávarafurða hefur verið ríflega helmingur af verðmæti alls vöruútflutnings lengi vel þó að hlutfall hans hafi farið minnkandi á undanförnum árum. Árið 2005 fór um 75% af flutningi íslenskra sjávarafurða til Evrópusambandsins og Ísland var næststærsti innflytjandi sjávarafurða til ESB árið 2004 með 8,3% af heildarinnflutningi. Þetta kemur fram í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Ísland hefur mikla sérstöðu í sjávarútvegi samanborið við aðildarríki Evrópusambandsins og felst sú sérstaða fyrst og fremst í mikilvægi sjávarútvegs fyrir þjóðarbúskapinn. Sérstaðan felst einnig í því að Íslandsmið eru ekki samliggjandi við mið aðildarríkja þess og margir af helstu fiskstofnum hér við land eru staðbundnir á Íslandsmiðum en ekki sameiginlegir auk þess sem aðrar þjóðir hafa nær enga veiðireynslu í íslenskri efnahagslögsögu sl. 30 ár. Íslendingar hafa einnig aflað sér talsverðrar veiðireynslu á öðrum miðum og hafa mikilla hagsmuna að gæta varðandi úthafsveiðar og deilistofna.“

Ljóst er að staða okkar er mjög sérstök af því að við reiðum okkur á sjávarútveginn og út frá því hvernig sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins hefur þróast hef ég talið að okkar hagsmunum væri betur borgið utan sambandsins. Sjávarútvegurinn er svo mikilvægt atriði fyrir okkur Íslendinga. Sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins ber auðvitað merki þess að sjávarútvegur er aðeins innan við 1% af landsframleiðslu Evrópusambandsríkjanna og hefur að því leytinu til auðvitað ekki verið jafnmikilvægur og fyrir okkur þar sem hann er ríflega helmingur.

Nú veit ég vel að sjávarútvegsstefnan er í endurskoðun og það getur vel verið að hún eigi eftir að taka einhverjum bótum en ég tel þetta vera einn af meginhagsmunum Íslands þegar kemur að samskiptum við Evrópusambandið. Það eru yfirráðin yfir fiskveiðiauðlindinni og hvernig henni verður ráðstafað. Ég minni á að þriðjungur okkar afla eða um það bil hefur komið úr deilistofnum ef ég man rétt. Þeir eru auðvitað ekki veiddir á þeim miðum sem telja má að við höfum sögulega veiðireynslu og eigum rétt á umfram aðrar Evrópusambandsþjóðir. Það skiptir líka máli fyrir útflutninginn og stöðu hans og efnahagsstöðu okkar hvernig þeim verður ráðstafað.

Þá komum við að landbúnaðarmálum sem mig langar líka að nefna sérstaklega í þessum efnum. Ég ætla að leyfa mér að vitna í sömu skýrslu frá 2007 en hjá þeirri nefnd sem þá starfaði var farið yfir áhrif Evrópusambandsaðildar á íslenskan landbúnað og reyndar var það tekið í víðara samhengi því að það var líka rætt út frá hinum alþjóðlegu samningum sem gerðir hafa verið um viðskipti með landbúnaðarvörur. Ljóst þykir að aðild Íslands að ESB mundi leiða til samdráttar og tekjumissis í landbúnaðinum. Þetta rímar í raun við þann málflutning sem Bændasamtökin hafa haft uppi og fleiri aðilar. Sérstaklega varðar þetta við þær greinar sem eru í beinni samkeppni við ríki Evrópusambandsins og nefni ég sérstaklega kjúklinga- og svínakjötsframleiðslu.

Við Íslendingar höfum líka haft ákveðna sérstöðu þegar kemur að búfjársjúkdómum og vörnum á því sviði þar sem við höfum náð gríðarlega góðum árangri sem við getum kallað einstæðan og tengist okkar landfræðilegu legu. Þetta eru aðrir hagsmunir sem ég tel geta talist til meginhagsmuna Íslendinga í samskiptum við Evrópusambandið.

Ég vil líka minna á landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins almennt og hvernig hún gefst. Staðreyndin er sú að mínu viti, og skilningur minn eða trú mín á því hefur í raun styrkst eftir að ég fékk tækifæri til að fara til Brussel með Evrópunefndinni síðari sem ég sat í og ræða þar við framkvæmdastjóra landbúnaðarmála hjá Evrópusambandinu, Mariann Fischer Boel, en ég hef þá trú að landbúnaðarstefna Evrópusambandsins sé því miður ekki nægilega framsækin þegar kemur t.d. að hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Því miður sjáum við að landbúnaðarafurðir eru fluttar á milli landa innan Evrópusambandsins á afar óumhverfisvænan hátt út frá einföldum reglum um tolla og frjálsa för vöru en án þess að umhverfishagsmunir séu hafðir að leiðarljósi. Þó að þetta varði kannski ekki sérstaklega kjör Íslendinga þá held ég að það sé þörf fullrar endurskoðunar á þessari stefnu. Óháð því hvað verður um þessa tillögu og hugsanlega aðild okkar Íslendinga að Evrópusambandinu þá held ég að það sé full þörf á því að sambandið endurskoði þessa stefnu og hugi að svæðisbundnari framleiðslu landbúnaðarvara, hugi að því að markmiðum sjálfbærrar þróunar sé fylgt í ríkari mæli þegar kemur að landbúnaði.

Sjávarútvegur og landbúnaður eru vissulega okkar meginhagsmunir. Hér hafa líka verið nefnd orkumál og auðlindamál sem hingað til hafa verið á forræði hvers ríkis fyrir sig. Þá erum við eiginlega komin að því sem varðar eðli Evrópusambandsins hvert það er að þróast og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson ræddi hér áðan, þ.e. þróunina innan Evrópusambandsins og hún skiptir líka máli þegar við ræðum efnislega um þetta mál.

Í raun er ég búin að fara aðeins yfir þessi efnahagslegu rök og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson gerði það líklega mun betur áðan þegar hann fór yfir Maastricht-skilyrðin og ólíkindin á því að við gætum uppfyllt þau skilyrði á næstu árum. Hann ræddi þar um árið 2016 en það er ljóst að það er langt í það. Ég er sammála hv. þingmanni um að krónan muni verða sá gjaldmiðill sem þjóni okkur kannski best í því að komast út úr þeirri kreppu sem við eigum í nú þó að í áliti Sjálfstæðisflokksins frá 17. apríl sé fyrst og fremst rætt um evruna. En ég hef fullan skilning á því að umræðan hafi þróast innan Sjálfstæðisflokksins eins og annarra flokka.

Eðli Evrópusambandsins er að það var upphaflega stofnað í kringum viðskiptahagsmuni, Kola- og stálbandalagið, líka með það að markmiði að friður héldist í álfunni, stofnað á árunum eftir stríð. En fyrst og fremst hefur bandalagið snúist um viðskiptahagsmuni allt frá stofnun. EES-samningurinn snýst líka um viðskiptahagsmuni, fjórfrelsið svokallaða, með frjálsri för fjármagns, fólks, vöru og þjónustu. Þegar við höfum rætt um markaðshagsmuni, að markaðshagsmunir ráði um of ferð, getum við vísað í hina alræmdu Bolkenstein-tilskipun sem kom frá Evrópusambandinu og snerist um frjálst útboð á hvers konar þjónustu. Þjónustan sem þar var skilgreind gekk hreinlega út á allt sem tengdist — eða mjög stóran hluta, ekki allt, það er ekki rétt með farið hjá mér, en mjög stóran hluta almannaþjónustu, að mjög stór hluti af almannaþjónustu yrði útboðsskyldur þannig að venjuleg sveitarfélög gætu t.d. ekki kosið að reka bókasafn heldur yrðu þau að bjóða það út og svo mætti lengi telja. Þessari tilskipun var að hluta til snúið við, þó ekki kannski endilega út af þessu heldur snerist það líka um framboð á frjálsri för verkafólks. Vel þekkt er umræðan um pólska píparann sem tröllreið franskri umræðu eða frönskum stjórnmálum þegar Frakkar greiddu atkvæði á sínum tíma um stjórnarskrá Evrópusambandsins og felldu hana. Við sjáum því að það eru oft mikil átök innan þessa sambands.

Ég hef verið að skemmta mér við það á síðkvöldum að undanförnu að lesa greinasafn ýmissa fræðimanna um ESB og um þær pólitísku hræringar sem þar standa yfir. Þar er fjallað um ýmsar lykilspurningar um valdabaráttuna innan sambandsins. Það er viðtekin söguskoðun ýmissa fræðimanna að ESB hafi kannski þjónað Þjóðverjum einna best af Evrópuþjóðum, að þar hafi þeir getað byggt upp efnahagsveldi sitt á erfiðum tímum eftir stríð. Bretar hafa af þeim sökum jafnvel helst kosið að vera úti á kantinum í þessu sambandi eins og vel er þekkt og ekki síst auðvitað á níunda áratugnum undir forustu Thatcher. Þó virðist þessi fjarlægð vera enn til staðar og má taka sem dæmi afstöðu Breta þegar kemur að Schengen, afstöðu Breta þegar kemur að myntsamstarfinu o.fl. Það er ljóst að valdabaráttan innan sambandsins hefur verið gríðarleg í gegnum árin.

Þó má segja að yfirlýst markmið þeirra sem ráðið hafa förinni í Evrópusambandinu hefur verið að þjappa ríkjunum saman innan sambandsins, þjappa saman þjóðunum og reyna að samræma sem mest af regluverki þjóðanna. Það var auðvitað sérstök upplifun líka fyrir okkur sem vorum í Brussel í sömu ferð og ég nefndi hér áðan að ræða við svokallaðan sambandssinna sem sat á Evrópuþinginu og sagði: Það er ekki hægt að tala um hagsmuni þjóða, það er eingöngu hægt að tala um evrópska hagsmuni.

Eins og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson benti hér á í ræðu sinni hefur t.d. fyrrverandi utanríkisráðherra Þjóðverja, Joschka Fischer, líklega einn harðsnúnasti Evrópusambands- og Evrópusinni sem finna má í evrópskum stjórnmálum, einmitt verið að ræða þetta að stækkunin í og með, þróun stjórnarskrárinnar og síðar Lissabon-sáttmálans, sé að breyta þróuninni, þ.e. að samþjöppunin muni ekki takast og sambandið sé að gliðna. Ég held reyndar að ég hafi líka nefnt Joschka Fischer í fyrri ræðu minni þannig að mér verður tíðrætt um þann mann en hann er til marks um það hvað þeir telja sem eru harðsnúnastir af sambandssinnum. Ég tel að þessi stækkun geti vissulega haft áhrif á þróunina og gert sambandið að jafnvel laustengdara bandalagi. Það er alla vega ljóst að mikil valdabarátta stendur yfir.

Álitaefnin eru því mörg þegar kemur að samskiptum Íslendinga við Evrópusambandið. Það sem ég hef ekki enn nefnt er kannski það hvernig við Íslendingar lítum á okkur í því samhengi. Það er ljóst að Evrópusambandið á í stórkostlegum sjálfsmyndarvanda því að allar tilraunir þeirra til að skapa evrópska sjálfsmynd hafa tekist illa. Innan Evrópuríkja hafa komið upp alls konar tilraunir til þess að skapa það sem kallað er evrópskt ídendítet eða sjálfsmynd. Ég get bara nefnt eitt dæmi sem er ofurhetjan Captain Europe, sem er þekkt evrópsk teiknimyndahetja sem enginn les af því að enginn samsamar sig með Captain Europe. Þannig er það. Tilraunir til að skapa sjálfsmynd Evrópusambandsins hafa því ekki gengið upp en hins vegar hefur valdabaráttan ráðist að miklu leyti af sjálfsmynd þeirra þjóða sem byggja þetta samband saman og okkar íslenska sjálfsmynd hlýtur þá líka að skipta máli.

Við hugsum auðvitað gjarnan um okkur sem þjóð og skilgreinum okkur sem þjóð út frá þeirri orðræðu sem kemur upp í sjálfstæðisbaráttunni hér á 19. öld og þróast áfram á 20. öldinni þegar hið nýja pólitíska þjóðarhugtak verður í raun og veru til og þjóðir fara almennt að skilgreina sig út frá einhverju pólitísku hugtaki en ekki bara sem flokk eða hóp fólks sem á eitthvað sameiginlegt. Það tengist auðvitað ákveðnum utanaðkomandi aðstæðum, það tengist iðnvæðingunni, það tengist því hvernig samfélagið breytist í borgarsamfélag, það tengist því að við hættum að þekkja hvert annað en þurfum einhverja nýja stærð til að skilgreina okkur sem hugtak.

Ég las grein eftir ágætan Evrópufræðimann sem sagði að fyrst og fremst væri aðild að Evrópusambandinu tilfinningamál. Ég held að það sem hann hafi átt við hafi verið hvernig við skilgreinum okkur sem þjóð og hvað við köllum í okkar huga afsal á fullveldi og afsal á sjálfstæði. Kannski er það því sjálfsmynd Íslendinga sem mestu máli mun skipta þegar og ef — og það veltur auðvitað á því hvað verður um þessa tillögu. Ég er þó þeirrar trúar að sú stund muni koma að Íslendingar sem þjóð taki afstöðu til þess hvort þeir vilji vera hluti af Evrópusambandinu og ég held að þá skipti miklu máli hvernig sjálfsmynd okkar er. Þetta kann að hljóma fílósófískt en ég held þó að þetta skipti miklu máli, ég held að við sem Íslendingar tökum ekki bara afstöðu út frá einhverjum hagsmunum sem við getum kortlagt fullkomlega í okkar huga heldur líka hvernig við lítum á okkur í samskiptum við þetta stóra samband.

Það er nefnilega svo merkilegt með sjálfsmyndina að Íslendingar skilgreindu sig fyrr á öldum yfirleitt bara sem Dalamenn eða sem Breiðfirðinga eða eitthvað annað slíkt fremur en sem þjóð. Þegar við lesum fornsögurnar sjáum við auðvitað að þetta er ekki neitt sem við getum rakið aftur þangað, þetta þjóðernishugtak okkar. Það er því erfitt að spá líka um framtíðina, ekki bara þegar kemur að efnahagsmálum, ekki bara þegar kemur að einhverri pólitískri þróun innan Evrópusambandsins, það er líka erfitt að spá hvernig við eigum eftir að hugsa um okkur.

Þá vil ég aðeins víkja aftur að nefndaráliti utanríkismálanefndar. Mig langar aðeins að nefna hér í lokin það sem rætt er í nefndarálitinu um fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslna. Á síðum 33–34 eru ræddar hugmyndir um að sérstök skrifstofa, Lýðræðisstofa, muni fara með framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég tel að þetta þurfi að ræða frekar hér í þinginu. Ég veit að fyrir liggja tvö frumvörp um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna en þarna er í raun verið að breyta allaverulegum hlutum hvað varðar framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna og fela Lýðræðisstofu hlutverk sem áður hefur verið á borði til að mynda Hæstaréttar og landskjörstjórnar. Ég vil bara ítreka það að ég hef ekki enn tekið afstöðu til þessa en ég er mjög efins um að fara út í slíkar breytingar á því sem við þekkjum úr okkar fyrri kosningum. Ég vil því ítreka að eftir er að taka afstöðu til þessa máls þó að það sé rætt hér í nefndaráliti og þó að ætlunin sé, ef þetta verður samþykkt, að fylgt verði því verklagi sem hér er lagt upp með þá lít ég svo á að það verklag eigi við um aðildarviðræður en ekki um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu og ég tel að þetta þurfi að ræða mun betur hér í þinginu.

Þegar kemur hins vegar að því sem sagt er á blaðsíðu 35 um að þjóðin greiði atkvæði um hugsanlegan aðildarsamning lít ég svo á að sú atkvæðagreiðsla hljóti að vera pólitískt skuldbindandi fyrir Alþingi. Meiri hlutinn telur ekki skipta meginmáli hvort niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu, með leyfi forseta, fyrirgefið forseti, ég gleymi stundum hér áður en ég fer að vitna í. Með leyfi forseta, stendur hér:

„Meiri hlutinn telur ekki skipta meginmáli hvort niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild sé lagalega bindandi eða leiðbeinandi, enda verði afstaða stjórnmálaflokka skýr um að þeir bindi sig pólitískt til að hlíta vilja þjóðarinnar í þessum efnum.“

Ég lít svo á að ef stjórnmálaflokkarnir eru ásáttir um það að binda sig pólitískt hljóti þjóðaratkvæðagreiðslan væntanlega að vera bindandi að því marki, a.m.k. móralskt bindandi, ef svo má að orði komast. Hér er notað orðið „leiðbeinandi“ þjóðaratkvæðagreiðsla, ekki ráðgefandi, sem á væntanlega þá að virka sem leiðbeiningar inn í þingið, en ég hefði gjarnan viljað að þetta yrði rætt enn frekar. Þegar við ræðum framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna almennt, þá tel ég mjög mikilvægt að við tökum ítarlega umræðu um þennan lið sérstaklega og hvernig hann á að fara fram.

Ég ætla ekkert að hafa frekari orð um þessi mál. Ég ítreka það sem ég hef sagt að ég tel að þetta nefndarálit sé mikilvæg viðbót inn í umræðuna. Þarna kemur mjög margt fram sem er í raun eðlilegt framhald af þeirri umræðu sem átt hefur sér stað á hinu pólitíska sviði mörg undanfarin ár og snýst um það hvernig Íslendingar ætla að taka afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu, spurningar sem hafa verið uppi á borðum árum saman. Ég held að það skipti miklu, af því að allar þjóðir hafa verið mjög klofnar þegar kemur að þessari spurningu og ríkisstjórnir hafa verið klofnar líka þegar kemur að þessari spurningu. Nægir þar að nefna minnihlutastjórnina í Noregi á sínum tíma, það nægir að nefna finnsku ríkisstjórnina á sínum tíma þar sem flokkarnir voru ekki á eitt sáttir um nákvæmlega þessi mál, nægir að nefna Svíþjóð þar sem sagt hefur verið að þjóðaratkvæðagreiðslan um aðild hafi verið eina skoðanakönnunin þar sem aðildin fékk meiri hluta árum saman, bæði fyrir og eftir. Það merkilega er að spurningin deyr ekki einu sinni hvort sem sagt er já eða nei. Nýlega var ég á ferð um Danmörku og Svíþjóð, stuttri ferð, þar sem uppi var mikill áróður enn þá eftir kosningar til Evrópuþings þar sem fólk var hvatt til þess að hunsa kosningarnar til Evrópuþingsins og rekinn áróður fyrir úrsögn úr Evrópusambandinu. Mér hefur því sýnst að þessi pólitíska spurning eigi eftir að vera lifandi öll næstu ár og í raun og veru koma aftur hingað á borðið jafnvel, hvort sem við segjum já eða nei að þessu sinni.