137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:15]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það standi ekki til, jafnvel þó að þessi tillaga verði felld, að hætta því góða samstarfi sem hæstv. ráðherra vísar til. En það er annað sem ég vildi vekja athygli á í þessu kostnaðarmati. Það er talað um að nálgunin á viðræðurnar skipti máli varðandi kostnaðinn hvort ódýrasta leiðin verði farin eða dýrasta leiðin. Í ódýrustu leiðinni er ekki lögð nein sérstök áhersla á samningsmarkmiðin.

Mig langar til að vita hvort sú ákvörðun hafi einhvern tíma verið tekin, hvort hæstv. ráðherra viti það, hvort sú pólitíska ákvörðun sem talað er um í kostnaðarmatinu hafi verið tekin, þ.e. hvort eigi að fara ódýrustu nálgunina eða dýrustu nálgunina. Þetta var ekki rætt í hv. utanríkismálanefnd þar sem kostnaðarmatið frá 8. júlí var aldrei rætt. Mér vitanlega hefur ekki komið fram hvort ákvörðun um þessa nálgun hafi verið tekin og þá á ég við í ríkisstjórn. Ég mundi gjarnan vilja fá að vita það vegna þess að það skiptir náttúrlega gríðarlegu máli í þessu samhengi.