137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:30]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu og sitt sýnist hverjum í því máli. Við getum deilt um tímasetninguna. Átti að bíða þar til þjóðin væri búin að vinna sig út úr þeim vanda sem við blasir og á hvaða tímapunkti hefði þá verið æskilegt að afgreiða slíka tillögu? Við getum einnig velt því upp hvort ekki hefði verið æskilegt að ljúka fyrst umræðum um Icesave-samningana á undan afgreiðslu þessa máls.

Það verður að segjast, frú forseti, að óásættanleg niðurstaða þeirrar samninganefndar sem fór þá með umboðið hræðir, svo mikið er víst.

Frú forseti. Flestum er ljóst að lítið hefur áunnist í að endurreisa Ísland frá því í október síðastliðnum. Við höfum í dag enga heildstæða áætlun til framtíðar. Það þarf að ná stjórn á ríkisfjármálunum en mér er til efs að það náist í ríkisstjórn vinstri flokka. Þeir sem nú sitja í ríkisstjórn þurfa að koma bankakerfinu í gang. Það hefur tafist og nú er horft til þess að 17. júlí geti orðið sá dagur er bankarnir komast í gang. Það þarf líka raunhæfar lausnir í þágu heimila og fyrirtækja en því miður, frú forseti, eru þessar lausnir ekki í sjónmáli þrátt fyrir aðgerðir ríkisstjórnarinnar og fullyrðingar ráðherra hennar í þá veru. Það skilar sér ekki, því miður, og það hefur engum gagnast, frú forseti, að berja höfðinu við steininn. En samhliða þarf íslenska þjóðin í þessu risaverkefni innlendrar endurreisnar að snúa aftur inn í alþjóðasamfélagið þannig að hún njóti lánstrausts á ný og kreppan hefur kennt okkur að við getum ekki verið með gjaldmiðil eins og krónuna sem er illa varin fyrir hvers konar gróðabraski innlendra sem erlendra spákaupmanna. Þessi atriði, frú forseti, innlend stórverkefni sem við er að glíma, að komast inn í alþjóðasamfélagið á nýjan leik og íslenski gjaldmiðillinn, er kjarninn í íslenskri pólitík í dag. Á þessu höfum við öll ýmsar skoðanir og getum þráttað lengi en þingsályktunartillagan um aðildarumsókn að Evrópusambandinu liggur fyrir og hlutskipti okkar þingmanna er að ræða málið í þaula og leiða til lykta á einn eða annan hátt.

Nefndarálit meiri hluta utanríkismálanefndar er áfangi á þeirri vegferð sem fram undan er en það eru engu að síður mikil vonbrigði að ekki skyldi hafa tekist breiðari samstaða um svo veigamikið mál, samstaða innan stjórnarflokkanna tveggja sem og stjórnarandstöðu. Það eru mér, frú forseti, veruleg vonbrigði.

Ályktunin sem hér liggur fyrir snýst um tvennt: Annars vegar að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu og að loknum þeim viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning. Hins vegar snýst tillagan um að ríkisstjórnin fylgi sjónarmiðum um verklag og meginhagsmuni sem fram koma í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar.

Frú forseti. Upphafleg tillaga ríkisstjórnarinnar var afar ófullkomin en við meðferð málsins hefur utanríkismálanefnd tekist að lagfæra þá tillögu. Þar hefur m.a. verið tekið tillit til hugmynda þingflokka Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks um nauðsynlegan vegvísi í samningaviðræðum. Það er til bóta. En engu að síður er afar mikilvægt og afar miður, frú forseti, að ekki skuli hafa tekist víðtækari samstaða um framgang málsins á þinginu. Það hlýtur að vekja spurningar af hverju ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gerði ekki sitt ýtrasta til að ná samstöðu allra flokka á þingi. Málið er að mínu mati a.m.k. mikilvægara en svo að það eigi heima í flokkspólitískum deilum. Það tókst ekki og á því ber, og ég ítreka, frú forseti, á því ber ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs ábyrgð. Svo einfalt er það. Ábyrgðin er þeirra og hún er mikil.

Hvers vegna vildi ríkisstjórnin ekki breiða samstöðu um málið? Var það virkilega vegna mismunandi hugmynda um stjórnskipulega lokameðferð málsins, hugmynda sem snúast annars vegar um að íslensku þjóðinni verði veitt heimild í þjóðaratkvæðagreiðslu til að veita ráðgjöf eða hins vegar að þjóðin hafi í þjóðaratkvæðagreiðslu raunverulegt úrslitavald?

Frú forseti. Ég tel eðlilega stjórnskipulega lokameðferð máls af því tagi sem hér er rætt vera þá að heimila aðild með stjórnarskrárbreytingu, samþykkja síðan lög um hugsanlegan aðildarsamning á Alþingi og bera þau lög þar á eftir undir þjóðaratkvæði. En þetta kallar á kosningar til Alþingis vegna breytinga á stjórnarskrá. Það virðist vera, frú forseti, að núverandi ríkisstjórn vilji komast hjá því að leggja mál sín í dóm þjóðarinnar fyrr en að fjögurra ára kjörtímabili liðnu. Það er ömurleg afstaða í þessu stóra mikilvæga máli og sýnir svo ekki verður um villst að þar á bæ eru pólitísk völd meira virði en lýðræðið og þjóðin sjálf. (Gripið fram í: Heyr! Heyr!) Það er dapurlegt hlutskipti ríkisstjórnarflokkanna sem fram til þessa hafa rætt um lýðræði, lýðræðishalla og lýðræðislegar umbætur að hafa ekki kjarkinn í þá veru og í lokameðferð þessa mikilvæga máls.

Frú forseti. Ég bind vonir við að ríkisstjórninni snúist hugur hvað þetta varðar og hún fallist á þá lýðræðislegu málsmeðferð sem ég lýsti að ofan. Ég leyfi mér, frú forseti, að skora á hæstv. ríkisstjórn að lýsa því yfir áður en, og ég endurtek, frú forseti, áður en greidd verða atkvæði um þessa þingsályktunartillögu að hún muni fara þá leið sem hér var lýst að framan.

Frú forseti. Tillaga þessi fjallar einnig um að ríkisstjórnin fylgi sjónarmiðum um verklag og meginhagsmuni sem fram koma í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar. Ég sagði fyrr að upphafleg tillaga ríkisstjórnarinnar hafi verið ófullkomin og að utanríkismálanefnd hafi tekist að bæta hana til muna. Þar ber sérstaklega að fagna aukinni aðkomu Alþingis. Þess gerðist þörf vegna þess að svo virðist sem ekki ríki traust til þeirra sem nú fara með stjórnvölinn í landinu. Það ríkir ekki traust til þess aðila sem fara á með og leiða umræðurnar, ef í þær verður farið, og við höfum, frú forseti, samningana um Icesave og þeir hræða verulega. Þess vegna er það ánægjuefni að utanríkismálanefnd hafi sett inn þau skilyrði að aðkoma Alþingis og annarra hagsmunaaðila verði aukin.

Í þessu máli hefur það margoft verið rætt að setja þurfi skilgreind markmið og samningskröfur og ætíð hefur verið lögð mikil áhersla á að ekki verði gefin eftir til annarra þjóða eða til samtaka þeirra yfirráð yfir auðlindum Íslands. Um þetta eru flestir ef ekki allir sammála. En það er ljóst að það fara ekki alltaf allir hagsmunir saman. Áðan ræddi hæstv. menntamálaráðherra um að hugsanlega til framtíðar litið yrði Evrópusambandið laustengdara en það er nú. Það er hugsanlegt í því sambandi að horfa til þess að meginlöndin starfi saman, að Norðurlönd og hugsanlega Ísland og Bretar verði saman og síðan lönd hinnar gömlu Austur-Evrópu í því laustengdara sambandi sem horft er til. Spurt er: Hvernig sjá menn Evrópusambandið eftir 60 ár? Eftir 100 ár? Eftir 200 ár? Þeirri spurningu getur enginn svarað. Fæstir geta svarað því hvernig Evrópusambandið verður eftir fimm ár eða eftir tvö ár en það breytir ekki því að Evrópusambandið er til og það er stór hópur Íslendinga, stór hópur hagsmunaaðila sem vilja að sótt verði um aðild í það samband.

Samstaða er þjóðarnauðsyn, segja fulltrúar ýmissa samtaka atvinnulífsins og, með leyfi forseta, stendur hér í grein frá Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins og samtökum ASÍ:

„Stærsta hagsmunamál atvinnulífsins, launþega og atvinnurekenda er að tryggja starfsskilyrði sem gera íslenskum fyrirtækjum mögulegt að vaxa og dafna og skapa þannig atvinnu og hagsæld.“

En svo er sagt, með leyfi forseta:

„Hér fara saman hagsmunir þeirra sem reka fyrirtæki og þeirra sem reka heimili og þurfa að sjá sér og sínum farborða. Nægir að nefna stöðugan gjaldmiðil, sanngjarna vexti, skaplegt matvælaverð og síðast en ekki síst gagnkvæmt traust sem er forsenda farsælla samskipta og viðskipta við umheiminn.“

Með leyfi forseta, segja þessir aðilar áfram:

„Við erum sammála um að hagsmunum íslensku þjóðarinnar verði best borgið innan ESB og með upptöku evru. Þess vegna viljum við að þegar verði sótt um aðild að ESB og gengið frá aðildarsamningi þar sem heildarhagsmunir þjóðarinnar eru hafðir að leiðarljósi.“

Frú forseti. Þetta er hluti atvinnulífsins sem svo talar. Við þekkjum líka afstöðu Landssambands íslenskra útvegsmanna og Bændasamtakanna sem leggjast eindregið gegn aðildarviðræðum, þannig að hópur þeirra sem mæla með og mæla gegn er klofinn á nákvæmlega sama hátt og svo virðist sem Alþingi Íslendinga sé klofið í afstöðu til aðildarviðræðna við ESB. Við eigum líka, frú forseti, já- og nei-hreyfingar, við höfum heimsþing sem er nei-hreyfing og við höfum aðra sem við erum sammála sem er já-hreyfing. Alls staðar í íslensku samfélagi eru því ólíkar skoðanir og ólík afstaða til þess hvort sækja eigi um aðild að Evrópusambandinu.

Hér liggur fyrir tillaga, frú forseti, um að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Menn hafa hins vegar ekki komið sér saman um lokameðferð málsins eins og ég sagði hér að framan og það er miður vegna þess að lægi fyrir afstaða um það hvernig ljúka ætti málinu tel ég að um þessa þingsályktunartillögu gæti ríkt meiri samstaða. Ég vil hrósa utanríkismálanefnd fyrir það hvernig hún enn og aftur eykur aðkomu Alþingis og hagsmunaaðila ef og þegar að samningaviðræðum kemur. Það er til sóma.

Frú forseti. Skoðanir eru margar og afar ólíkar eins og ég hef lýst hér og margoft sagt. Ég ætla mér ekki að rekja hvorki þá hagsmuni sem forsvarsmenn atvinnulífsins sem vilja aðildarviðræður leggja til né heldur forsendur Landssambands íslenskra útvegsmanna og Bændasamtakanna sem leggjast gegn. Þetta eru þekktar stærðir í málinu sem aðrir hafa gert góð skil hér og flestir geta lesið sér til um. En við vitum að hagsmunir eru ólíkir, við vitum að hagsmunir munu rekast á. Við vitum að skoðanir eru ólíkar og án efa mun ganga erfiðlega að sætta ólíkar skoðanir en hvort sem okkur þingmönnum líkar betur eða verr þá liggur verkefnið fyrir. Það er mín skoðun að hin mörgu og ólíku álitamál sem nefnd hafa verið verði aðeins skýrð í viðræðum.

Þingmenn á hinu háa Alþingi skiptast óháð flokkum í þessu máli. Þeir ættu ekki að þurfa að réttlæta afstöðu sína. Hún er hápólitísk en ekki flokkspólitísk. Hún er ekki stuðningur við ríkisstjórn né yfirlýsing um vanhæfi ríkisstjórnar. Hún byggir á því einu, hæstv. forseti, að það er sannfæring þingmanna, með eða á móti aðildarviðræðum við Evrópusambandið, sem ræður för í atkvæðagreiðslu. Ef þingsályktunartillaga um aðildarviðræður við Evrópusambandinu verður samþykkt er afar mikilvægt, frú forseti, að tíminn fram að viðræðum verði nýttur til vandaðs undirbúnings. Það verður að vera svo að viðræðuferlið verði hafið yfir tortryggni vinnubragða. Það verður að ríkja sátt um vinnubrögðin, þau verða að vera gegnsæ og þau verða að liggja fyrir og vera öllum ljós.

Það skiptir líka gífurlega miklu máli, svo ég nefni það enn, frú forseti, að við útfærslu samningsmarkmiða verði haft náið samband við Alþingi og hagsmunaaðila. Ég veit hvernig ég mun greiða atkvæði í atkvæðagreiðslu um þessa þingsályktunartillögu og ég treysti íslenskri þjóð til að ráða örlögum sínum sjálf þegar þar að kemur í þessu mikilvæga máli sem og öðrum málum sem hún hefur hingað til ráðið við og íslensk þjóð ræður við þetta verkefni eins og öll önnur, frú forseti.