137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Eitt sinn var trójuhestur dreginn inn um borgarhlið. Mér finnst hv. þingmaður vera í sama hlutverki. Hann ætlar sér að vinna að því að Ísland gangi í Evrópusambandið. Ég spyr hann hvernig hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar Vinstri grænna ætli að líta framan í kjósendur sína eftir að Ísland er komið inn í Evrópusambandið með þeirra tilstilli. Hvort þeir geti fríað sig frá þessu frekar en því að vinna með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, vinna að lausn Icesave-málsins o.s.frv. Þeir fara alltaf þvert á það sem þeir hafa lofað.

Svo vildi ég spyrja hv. þingmann um kostnað við þessa umsókn. Hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt að hann vilji ekki ganga inn en hann ætlar samt að setja einn milljarð, sem verða væntanlega tveir, í að sækja um. Hann ætlar sem sagt að henda peningum út um gluggann. Er of mikið til af peningum í ríkissjóði?