137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:56]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög fróðleg umræða. Mér hefur fundist koma skýrt fram í ræðu hæstv. ráðherra að hann ætlar að fara það sem kallað er í kostnaðarmatinu frá utanríkisráðuneytinu dýrustu nálgunina, þ.e. viðræður með víðtæk samningsmarkmið sem væru undirbyggð með mjög mikilli sérfræðilegri greiningu, erlendri ráðgjöf og virku baklandi, miðað við hvernig hann talaði um hagsmuni ráðuneytis síns, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins.

En það er líka mikið talað um samningana sem Finnland fékk þegar það gekk í Evrópusambandið, hvað varðar landbúnaðinn. Í áliti meiri hlutans er vísað í starfshóp í utanríkisráðuneytinu um landbúnaðarmál. Ráðuneytið eða starfshópurinn fól Hagfræðistofnun Háskólans að máta íslenskan landbúnað inn í aðildarsamning Finnlands. Nú leikur mér forvitni á að vita meira um þetta og ég vildi því spyrja hæstv. ráðherra hvort þessi skýrsla Hagfræðistofnunar liggi fyrir og ef svo er, hvort hún hafi verið gerð opinber.