137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:36]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svar hans. Hann vitnaði áðan í orð Evu Joly um náttúruauðlindir sem eru mikilvægar fyrir Evrópu. Ummæli þessa ágæta þingmanns Evrópuþingsins, að ég held nú orðið, vöktu athygli mína.

Það er annað sem tengist þessu, í Morgunblaðinu 7. júní er viðtal við Michel Rocard, fyrrverandi forsætisráðherra Frakka, en búið er að skipa hann sendiherra Evrópusambandsins gagnvart heimskautunum. Þar talar hann um þessar orkulindir. Getur verið, hv. þingmaður, að þetta sé svo augljóst að Evrópusambandið sé til í að hliðra fyrir aðild okkar til þess eins að komast yfir þær auðlindir í sjó og landi (Forseti hringir.) sem eru hér við og á okkar góða landi?