137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[21:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og alveg sérstaklega þar sem hann gagnrýndi ferlið, í hvaða röð hlutirnir eru gerðir. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, sem er lögfræðingur eins og hv. þm. Birgir Ármannsson, kom með athyglisvert sjónarhorn á þetta mál. Ég vil nýta þekkingu hv. þingmanns sem lögmanns og spyrja hann að því og ég held að það sé mjög mikilvægt að það komi fram í umræðunni öll sjónarmið og öll þekking þingmanna, ég vil spyrja hv. þingmann að eftirfarandi:

Stjórnarskráin bannar aðild að Evrópusambandinu. Það er hreinlega bannað gagnvart núgildandi stjórnarskrá að ganga í Evrópusambandið vegna þess að það felur í sér afsal fullveldis og sjálfstæðis. Nú liggur fyrir tillaga um það að „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning“. Alþingi er að leggja til að framkvæmdarvaldið geri eitthvað, biðji um aðild að Evrópusambandinu sem er bannað samkvæmt stjórnarskrá. Ég vil spyrja hv. þingmann sem lögmann: Er það þinglegt yfirleitt að menn séu að ræða þetta á þessum nótum? Ef svarið er já, brýtur þetta stjórnarskrána? Ef það er reyndin og ef einhver ætlar að gera athugasemdir við það hvert snýr hann sér ef hann vill kæra þessa niðurstöðu?