137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[23:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni ágæta ræðu. Nú er það svo að Vinstri grænir voru sigurvegarar kosninganna síðast og maður hefði talið að þeir væru þá í góðri stöðu þegar þeir sömdu við Samfylkinguna. En samt hefur það gerst að Vinstri grænir þurfa að vinna með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og það er víst ekki voðalega erfitt. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir Vinstri grænum, hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum, að skera niður velferðarkerfið og gera þetta og hitt og þeir gera það, kannski ekki með glöðu geði. Svo var send sendinefnd til Bretlands og Hollands að semja um Icesave. Það átti víst aldrei að samþykkja neitt um það en það er líka bakkað með það og við erum með umræðu um Icesave á þinginu. Hv. þingmaður nefndi að Bretar stjórnuðu öllu í Evrópusambandinu. Ég held reyndar að það séu Þjóðverjar en ég held að í gegnum þetta ættu áhangendur Evrópusambandsins að átta sig á því að þetta er ekkert lauslegt samband jafnrétthárra ríkja. Atkvæðin, þó að við fengjum þrjú atkvæði, þá vega þau miklu minna heldur en eitt atkvæði af þeim atkvæðum sem Þjóðverjar hafa af því að Þjóðverjar borga allan brúsann.

En eftir fjórar vikur verðum við hugsanlega búin að samþykkja beiðni um aðild að Evrópusambandinu, og við verðum hugsanlega búin að samþykkja samninginn um Icesave. Ég vil spyrja hv. þingmann, sem er þingmaður Vinstri grænna, og eins og ég hef oft fórnað minni hagsmunum fyrir meiri, þá vil ég spyrja hann: Hvaða hagsmunir eru það virkilega sem eru meiri heldur en sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar?