137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[23:47]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get svarað hv. þingmanni því að ég tel að það séu engir hagsmunir meiri. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að nefna það sem sjaldan er nefnt, en Vinstri hreyfingin – grænt framboð var sigurvegari kosninganna. Ýmislegt hefði verið öðruvísi ef við hefðum orðið stórsigurvegarar og hlotið enn meira fylgi en þá er maður orðinn nokkuð frekur því að okkar fylgi jókst mjög mikið og ég er þakklát fyrir það.

Hvað varðar Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þá mótmæltum við í þinginu aðkomu hans en höfðum þá ekki afl til.

Hvað varðar Icesave þá var það líka frágengið. Við sitjum þar uppi með gerða hluti frágengna. Hvað varðar aðild að Evrópusambandinu, Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafnar aðild að Evrópusambandinu. Við gengum að því að fara þá leið að leggja inn umsókn, enda er, svo við séum sanngjörn, krafa mjög margra að láta á þetta reyna svo þjóðin geti kosið um það og þá sé þetta mál frá eða gengið inn í Evrópusambandið. Ég tel að svo lengi sem Evrópusambandið er til og meðan einhverjir eru til sem vilja ganga í það verði alltaf uppi þessi krafa um að sækja eftir aðild að Evrópusambandinu. En við munum berjast gegn því og aðild að Evrópusambandinu.