137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[23:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég reiknaði með því að í stjórnarmyndunarviðræðunum hafi menn verið að höndla um ýmis mál og Vinstri grænir hafa eflaust viljað ná fram sínum markmiðum, breyta þjóðfélaginu í sína veru og annað slíkt. Þeir fá ráðherrastóla fyrir. En ég spurði áðan: Eru þeir hagsmunir meira virði heldur en það að sækja um Evrópusambandsaðild? Hv. þingmaður nefndi líka afl Evrópusambandsins og áróðursafl Evrópusambandsins og það hafa fleiri nefnt það. Menn hafa nefnt að Evrópusambandið eyði meira í áróðursstríð heldur en Coca Cola á ári og það séu upphæðir sem séu svipaðar og Icesave á ári sem það eyðir í áróðursstríð. Þegar þessi samningur liggur fyrir sem hv. þingmenn Vinstri grænna gefa vilyrði fyrir að farið verði í, þegar sá samningur kemur til baka og hann verður þannig að veitt verður undanþága fyrir sjávarútveginn í 20 ár og undanþága um þetta og hitt í 10 ár, 20 ár og 30 ár, af því að Evrópusambandið hugsar til langs tíma en hæstv. utanríkisráðherra til skamms tíma, þá mun upphefjast gífurlega mikið áróðursstríð sem Evrópusambandið fjármagnar og enginn innlendur aðili hefur bolmagn til að standa gegn. Þá óttast ég að þjóðin verði með hótunum, loforðum og áróðri fengin til að samþykkja aðild að Evrópusambandinu. Þá hefur það gerst, frú forseti, að hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar Vinstri grænna hafa með aðgerðum sínum stuðlað að því að Ísland er orðinn aðili að Evrópusambandinu.