137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

upplýsingar varðandi ESB-aðild.

[10:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að það kemur mér verulega á óvart og ég í raun hálfvorkenni hv. formanni sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar að vera í þeirri stöðu að þurfa að svara fyrir eitthvað sem hann greinilega hefur ekki vitað um og ég trúi svo sannarlega hans orðum að hann hafi ekki haft upplýsingar um þessa skýrslu. En ég vil þá upplýsa það hér að allt frá 19. júní sl. er ég búinn að reyna að fá þessa skýrslu afhenta en það hefur einfaldlega ekki gengið. Mér hefur verið neitað um hana og sagt að þetta væri vinnuplagg eða gögn sem væru í vinnslu eða eitthvað þess háttar. Það er vísvitandi verið að halda þessum gögnum frá þinginu og þingmönnum og ég velti fyrir mér hvers vegna verið er að halda svona gögnum frá okkur. Er það vegna þess að það er eitthvað óþægilegt í þessu fyrir þá sem telja að hagsmunum Íslands sé best borgið innan Evrópusambandsins og vegna þess að þeir vilja ekki draga upp þá mynd, sönnu mynd sem er af íslenskum landbúnaði?

Í grein í dag í Morgunblaðinu segir Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna, með leyfi forseta:

„Nú er vitneskja fyrir hendi um að stjórnvöld hafi nýlega látið meta stöðu og áhrif á íslenskan landbúnað með því að máta hann við finnska samninginn.“

Ég ætla að leyfa mér að lesa þetta upp í ljósi fyrirsagnar þessarar greinar sem ber heitið „Endalok nútímalandbúnaðar á Íslandi“. Ég vil líka benda á að í grein sem er á vef Bændasamtakanna, bondi.is, er farið yfir greinargerð meiri hluta utanríkismálanefndar þar sem fjallað er um landbúnaðinn og það kemur alveg skýrt fram að Bændasamtökin og hagsmunaaðilar í landbúnaði telja að í þeirri tillögu meiri hlutans sem á að afgreiða í dag væntanlega er hvergi tryggt og ekki gætt hagsmuna landbúnaðarins. Það er því grundvallarskilyrði að við fáum þá skýrslu sem hér er talað um inn á borð Alþingis, til þingmanna, þannig að við getum haldið áfram að fjalla um það stóra og mikla mál sem á að fjalla um í dag. Að mínu viti getur það haft úrslitaáhrif á það hvernig einstakir þingmenn taka afstöðu í þessu máli.