137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

upplýsingar varðandi ESB-aðild.

[10:13]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Þetta er auðvitað vandræðalegt og óþægilegt mál að við skulum enn á ný í þingsal standa frammi fyrir því að það séu til gögn sem geta skipt okkur máli þegar um er að ræða jafnafdrifaríka ákvörðun og þá sem hér verður tekin væntanlega síðar í dag. Ég vil því gera það að tillögu minni, frú forseti, að við leysum þetta af því að ég held að þetta sé auðleyst mál í sjálfu sér. Ég legg til að boðaður verði fundur þingflokksformanna og forseta að þessari umræðu lokinni og síðan verði gert hlé í hádeginu milli tólf og eitt og boðað til fundar í landbúnaðar- og sjávarútvegsnefnd. Þar verði skýrslan lögð fram, menn geti skoðað hana og við getum haft hana í umræðunni það sem eftir er dagsins. Þetta er einfalt mál og ætti að vera auðvelt að bregðast við þessari beiðni. Það er illmögulegt að ætlast til þess að þeir þingmenn sem láta einmitt þennan málaflokk sig miklu varða, landbúnaðarmálin, eigi að taka afstöðu til þess hvort við eigum að sækja um aðild að ESB eða ekki, ef það liggur fyrir að slík skýrsla liggi fyrir, þó að ekki sé nema í drögum, sem getur haft áhrif á afstöðu þingmanna. Málið er nefnilega að þó að hún sé kannski bara í drögum þá eru þingmenn fullfærir um að leggja mat á þau drög rétt eins og starfsmenn utanríkisráðuneytisins eða hæstv. utanríkisráðherra. Það er því sjálfsögð krafa okkar þingmanna og allir þingmenn sama hvar í flokki þeir standa eiga að geta verið sammála um það, það er krafa þingsins og stórkostlegt réttindamál þingsins að tryggja að svona gögn berist til okkar. Við getum ekki búið við slíkt að það sé að gerast aftur og aftur að framkvæmdarvaldið haldi gögnum frá þinginu, vísvitandi að því er virðist, til að hafa áhrif á það hvernig þingmenn greiða atkvæði í þessum sal.