137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

upplýsingar varðandi ESB-aðild.

[10:22]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Setjum þetta mál í samhengi. Það gerðist um mánaðamótin apríl/maí að fyrir utanríkisráðherra var lögð fram grundvallarskýrsla sem snertir spurninguna um aðildina að Evrópusambandinu og er grundvallarmál varðandi landbúnaðinn. Þessi skýrsla var lögð fram um mánaðamótin apríl/maí, þ.e. áður en þessi tillaga er lögð fram. Skýrslunnar er hvergi getið í gögnum hæstv. utanríkisráðherra. Síðan hafa þessi mál verið til umfjöllunar í þinginu og aldrei hefur bólað á þessari skýrslu. Það liggur núna fyrir eftir þessa umræðu að einstakir þingmenn hafa verið að kalla eftir skýrslunni og þeim hefur verið synjað um hana. Það liggur enn fremur fyrir að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafði einhverja óljósa hugmynd um að þessi skýrsla væri til en hæstv. utanríkisráðherra hefur ekki haft fyrir því að kynna honum efni skýrslunnar. Það liggur líka fyrir að Alþingi hefur ekki fengið þessa skýrslu, sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, utanríkismálanefnd, engin þeirra nefnda sem fjalla um þessi mál. Svona er samhengi þessara hluta. Það hefur greinilega með markvissum hætti verið komið í veg fyrir að skýrslan yrði gerð opinber og kæmi fyrir almenningssjónir, hvað þá fyrir sjónir þingsins. Þetta eru auðvitað algerlega ólíðandi vinnubrögð en þetta eru hins vegar augljóslega meðvituð vinnubrögð. Þetta er aðferð til að halda upplýsingum frá fólki og kúga með þeim hætti því að sá sem hefur ekki upplýsingar getur auðvitað ekki beitt þeim upplýsingum í sinni orðræðu.

Þess vegna, virðulegi forseti, endurtek ég og árétta þá kröfu sem ég gerði hér í upphafi máls að þessi skýrsla verði lögð fyrir þingið fyrir lok þessarar umræðu þannig að menn gætu notað hana í umræðunni á eftir. Ég tek undir þá hugmynd hv. formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins að haldinn verði sérstakur fundur í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þar sem þessi skýrsla verði kynnt okkur og (Forseti hringir.) þingið geti síðan haft aðgang að henni til að taka afstöðu til þessa mikilvæga máls á grundvelli upplýsinga (Forseti hringir.) sem fyrir liggja nú þegar.