137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

upplýsingar varðandi ESB-aðild.

[10:27]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Fyrst er að finna út hvort skýrslan er til eða ekki og hvort hún er drög eða skýrsla eða hvort almennt hafi verið lokið við hana (Gripið fram í.) og það hlýtur að koma fram í dag. Ég efast ekki um það augnablik að hún verði grafin upp. Fyrst hæstv. landbúnaðarráðherra varpaði henni inn í umræðuna í gær hlýtur hann að vinna að því að hún komi fram.

Það sem alltaf hefur legið fyrir er að mikilvægustu samningsmarkmið Íslendinga þegar gengið verður til aðildarviðræðna við Evrópusambandið snúa að landbúnaðinum og stöðu byggðanna. Ég er á þeirri skoðun sjálfur að fyrir engan þátt þjóðlífsins geti aðild að Evrópusambandinu haft meiri og jákvæðari áhrif en fyrir byggðirnar því að byggðakerfi Evrópusambandsins snýr að því að byggja upp innviði samfélagsins, grunngerðina o.s.frv. En um leið felast klárlega í því ákveðnar hættur fyrir landbúnaðinn eins og hann er núna ef við fengjum ekki þá skilgreiningu sem Finnar fengu á sínum tíma að landbúnaður hér yrði skilgreindur sem sérstakur norðurslóðalandbúnaður. Þess vegna fagnaði ég því sérstaklega í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar hve vel og ítarlega er tekið utan um landbúnaðinn og byggðamálin en þar segir, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að Ísland nýti sér og skoði eftir atvikum hvort nauðsyn beri til að útvíkka gildandi reglur ESB til að ná fram heimildum fyrir Ísland til að tryggja sem best stöðu íslenskra bænda. Fordæmi þau sem sköpuð hafa verið í aðildarsamningum ríkja eins og Finnlands munu án efa verða mikill styrkur fyrir Ísland þar sem ástæða er til að ætla að m.a. verði unnt að skilgreina allt landið sem svæði norðurslóðalandbúnaðar og sem harðbýlt svæði. Það gæti skapað grundvöll til að styrkja íslenskan landbúnað, t.d. með framleiðslutengdum styrkjum, umfram það sem almennar reglur ESB kveða á um …“

Það er enginn að tala um tímabundna undanþágu, það er verið að tala um varanlega skilgreiningu. Þetta er eitt af mikilvægustu samningsmarkmiðunum og stuðningur minn við aðild að Evrópusambandinu hefur alltaf verið skilyrtur við það að staða landbúnaðarins sé varin en þessi (Forseti hringir.) umræða núna rammar hins vegar inn nauðsyn þess að sækja um aðild og sjá hvað við fáum og að kjósa um samninginn. (Gripið fram í.) Við getum deilt um það í áratugi í viðbót með heimsendaspámennsku og rekið hræðsluáróður en við vitum aldrei hvað við fáum fyrr en við sækjum um aðild.