137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:13]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get ekki á einni mínútu farið út í nákvæma hagfræðilega skilgreiningu á því hvernig við náum markmiðum Maastricht-skilyrðanna. Við vitum að þau fela í sér að ná þarf niður vaxtastigi, lækka verðbólgu og ná ákveðnu jafnvægi í ríkisbúskap, ekki má vera halli á ríkissjóði um tiltekinn tíma o.s.frv.

Þetta næst ekki nema með samstilltu átaki. Hvernig til tekst veltur m.a. á þessum vinnustað og þeirri samstöðu sem næst meðal þeirra sem véla um stjórnmál og stjórnun landsins. Engin ríkisstjórn getur unnið kraftaverk í þeirri stöðu sem við erum í núna nema til þess náist þokkaleg samstaða. Í því efni hefur sú stjórnarandstaða sem nú situr á Alþingi því miður ekki sýnt gott fordæmi, ekki talað kjark í þjóðina og ekki verið hvatning fyrir ríkisstjórnina til góðra verka og það er ábyrgðarhluti.