137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:57]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni Sigmundi Erni Rúnarssyni fyrir spurninguna. Hann segir og spyr mig og upplifir það þannig að ég sé hræddur við umheiminn. Ég verð bara að segja það af fullri einlægni að miðað við það hvernig komið var fram við íslenska þjóð í sambandi við Icesave-samkomulagið þá er ég bara skíthræddur. Ég segi það alveg hreinasatt. Ef þetta eru þeir aðilar sem við erum að fara að semja við — þeir nota Alþjóðagjaldeyrissjóðinn óbeint eða beint sem einhvern handrukkara fyrir sig og misbeita valdi sínu inn í Evrópusambandinu — þá er ég bara skíthræddur og ég viðurkenni það. Og er það nema von? Við erum að fara að afsala okkur fullveldinu okkar og ég segi bara það að ég er skíthræddur. Ég viðurkenni það alveg fúslega.

Ég sakaði hins vegar aldrei í ræðu minni Samfylkinguna um trúarofstæki. Ég sagði það aldrei í ræðu minni. (Gripið fram í: Trúarbrögð.) Eða trúarbrögð, ja, það getur verið að ég hafi sagt það. En svo ég haldi því til haga þá sagði ég í upphafi ræðu minnar að það væri kannski minnsti ágreiningur innan þingflokka Vinstri grænna og Samfylkingarinnar þar sem annar væri hreinlega með og hinn nánast allur á móti. Ég sagði það hér, frú forseti, að ég bæri virðingu fyrir þeim skoðunum Samfylkingarinnar. Ég sagði líka í ræðu minni að Samfylkingin hefði fært fyrir þeim mörg ágætisrök. Ég sagði það. Ég geri ekkert lítið úr þeim og ber fulla virðingu fyrir því sjónarmiði Samfylkingarinnar að hafa þessa skoðun. Ég virði hana. En ég er hins vegar algerlega ósammála henni.

Af því að hv. þingmaður nefnir hér fjölmiðlafrumvarpið þá velti ég fyrir mér í aðdraganda — og það á kannski eftir að koma í ljós þegar menn skoða söguna — að það hefði kannski verið mjög æskilegt ef það hefði farið í gegn vegna þess að við sjáum hvernig allt var. Það hefði hugsanlega getað haft þá einhver áhrif á þennan hrunadans okkar allan því við sjáum alla þræði sem þessir menn lögðu inn í allt hvort heldur það voru fjölmiðlar, tryggingafélög, bankar (Forseti hringir.) eða hvað sem var.