137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

fundarstjórn.

[13:14]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs hérna vegna fundarstjórnar forseta og í rauninni starfa þingsins vegna þeirra upplýsinga sem við erum að fá um að enn sé verið að halda leynd yfir þeirri skýrslu sem hefur verið hér til umræðu í dag. Ég ætla að spyrja hæstv. forseta hvort hún muni ekki beita sér fyrir því að þeirri leynd verði aflétt meðal annars til þess að létta fyrir þingstörfum.

Það er alveg ljóst að sú ríkisstjórn sem nú er að störfum er ríkisstjórn hinna stóru leyndarmála. Það má ekkert segja. Skýrslur eru faldar. Þeim er reynt að koma undan. Það er hins vegar verra og alvarlegt ef það er rétt sem kemur fram í bréfi frá utanríkisráðuneytinu að það hafi verið krafa Bændasamtaka Íslands að það væri leynd yfir þessari skýrslu sem um hefur verið rætt hér í dag, en það síðan ekki rétt. Þá er málið náttúrlega háalvarlegt. Það alvarlegt að það verður að taka það upp í forsætisnefnd þingsins og þá hugsanlega að gera hlé um tíma á þessari umræðu. Þetta skiptir máli. Þetta er plagg sem getur upplýst (Forseti hringir.) okkur sem tökum þátt í umræðunni enn frekar.

Þetta er, eins og ég segi, að verða ríkisstjórn hinna stóru leyndarmála. Það má ekkert segja.