137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:01]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Bhr):

Virðulegi forseti. Hér hafa verið fluttar margar ræður um það mál sem liggur fyrir, margar og mismunandi ræður, langar ræður, stuttar ræður bæði ágætar og skynsamlegar og svo kleppsræður og langhundar. Þessar ræður hafa fjallað um eiginhagsmuni ræðumanna, þrönga eiginhagsmuni og þetta mál skoðað í ljósi þeirra, en aðrir hafa skoðað málið með hagsmuni þjóðarinnar allrar í huga.

Hverri þjóð er nauðsynlegt að taka afstöðu með einum eða öðrum hætti til stærstu mála samtímans. — Gæti ég fengið hljóð? — Þess vegna fagna ég því innilega að nú skuli vera til umræðu að taka afstöðu til aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Umræða um það mál hefur nánast verið bönnuð áratugum saman og þöggun ríkjandi of lengi, allt of lengi, á langri, allt of langri, stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins. Viðbrögð þess flokks við umræðunni um væntanlega þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að Evrópusambandinu eru þau að sýna loddaraskap og klækjapólitík og halda því fram að ekki dugi minna en tvær þjóðaratkvæðagreiðslur loksins þegar þessi merkilegi flokkur ljáir máls á því að þjóðin fái yfirleitt að greiða atkvæði um nokkurn skapaðan hlut í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þessi flokkur vill að þjóðin greiði atkvæði tvisvar, í fyrsta lagi sé greitt atkvæði um hvort fara eigi í aðildarviðræður og síðan eigi að greiða þjóðaratkvæði um útkomuna úr aðildarviðræðunum. Mér finnst merkilegt að Sjálfstæðisflokkurinn skuli ekki leggja til að það verði þrjár þjóðaratkvæðagreiðslur og sú fyrsta verði þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort hafa eigi þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort vera skuli þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarviðræðurnar. Það væri samkvæmt þessu hægt að hafa fjórar eða fimm atkvæðagreiðslur af þessu tagi til þess að fresta málinu, drepa því á dreif og spilla umræðunni.

Mér dugir prýðilega ein þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta mál. Eins og ég og aðrir í Borgarahreyfingunni, frambjóðendur og þeir sem nú eru á þingi, töluðum fyrir í aðdraganda kosninganna er ein atkvæðagreiðsla fyrir þjóðina um þetta mál fullnægjandi. Nú hafa félagar mínir í þinghópi Borgarahreyfingarinnar ákveðið að styðja Sjálfstæðisflokkinn í þessu máli og þar með tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég vel að fiska ekki í gruggugu vatni og mun verða því trúr sem áður hefur verið talað á vegum Borgarahreyfingarinnar og trúr samvisku minni. Ég mun greiða því atkvæði að við sendum inn aðildarumsókn að Evrópusambandinu og síðan verði þjóðaratkvæðagreiðsla um samninginn.

Ég er sannfærður um að umræðan sem fer fram hér og utan veggja þessa húss um samningaviðræður við Evrópusambandið muni veita nýjum straumum inn í íslenskt þjóðfélag, valda breytingum og aðlögun sem verður okkur holl reynsla að takast á við. Ég tel að það muni hafa löngu tímabær og góð áhrif á lýðræði, menningu, stjórn og atvinnuvegi og jafnvel daglegt líf að takast á við ný viðhorf, hugsa um nýtt verklag og nýja strauma. Ég tel þörf fyrir að við á þessari eyju opnum glugga og gáttir og horfum út og hleypum fersku lofti inn í samfélag okkar sem er að mörgu leyti staðnað, spillt og sligað af pólitík gærdagsins, af flokkshygli, ættartengslum, flokkshagsmunum og einkavinafyrirgreiðslu. Við þurfum að lofta út, við hérna þurfum á stærri sjóndeildarhring að halda. Umræður um Evrópusambandið eru löngu tímabærar og ég fagna því að nú skuli sjá fyrir endann á þeim umræðum sem eiga sér stað í þessu húsi þar sem vel mættu vera fleiri gluggar opnir alla jafna.