137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það hljómar dálítið undarlega í mínum eyrum eftir að hafa hlustað á umræður hér úti á Austurvelli í vetur og eftir að hafa hlustað á fulltrúa Borgarahreyfingarinnar talandi um fjórflokka og annað slíkt að þeir núna ætli ekkert að leita til þjóðarinnar. Þeir vilja ekki einu sinni spyrja þjóðina hvort við eigum að ganga í Bandaríkin eða Evrópusambandið eða einhver önnur lönd eða ríkjasambönd. Þeir vilja ekki einu sinni spyrja þjóðina hvort við eigum að samþykkja samninginn því að sú kosning er óbindandi, hún er ekki bundin, hún bindur ekki þingið.

Hv. þingmaður Borgarahreyfingarinnar ætlar sem sagt að skilja þjóðina algjörlega eftir og treysta algjörlega á þetta Alþingi, sem hann hefur oft talað um sem Alþingi fjórflokkanna.