137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:10]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Bhr) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er ánægja að tilkynna hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur að hvort sem ég hef eitthvað á heilanum eða ekki þá er ég þó alla vega laus við að hafa Sjálfstæðisflokkinn á heilanum. Þess vegna er ég nú eins brattur og ég er.

Varðandi fyrirspurnina, sem sagt spurningu sem þingmaður — ef þingmaður er með heilann í lagi — veit þegar svarið við, um hvort ég geti ekki stutt þessa tvöföldu atkvæðagreiðslu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur soðið upp í einhverju óráði, þá er svarið við því algjört nei.

Í annan stað er svar (Forseti hringir.) mitt við spurningunni um hvort ég vilji ekki að þjóðaratkvæðagreiðslan um Evrópusambandið (Forseti hringir.) verði bindandi að hv. þm. veit jafnvel og ég að (Forseti hringir.) þjóðaratkvæðagreiðsla getur ekki verið bindandi miðað við óbreytta stjórnarskrá svo að ég lít á ráðgefandi atkvæðagreiðslu sem bindandi.