137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:13]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til þess að beina spurningum til hv. þm. Þráins Bertelssonar og skal ekki vera með hártoganir, vegna þess að hv. þingmaður minntist á að hann sæi, eins og ég skildi hann, að eina leiðin til þess að losna við þá spillingu og þann vanda sem við Íslendingar glímum við í stjórnkerfinu væri að leita á náðir Evrópusambandsins. Ég hef verið þeirrar skoðunar að við eigum að halda á okkar málum sjálf og að okkur sé farsælast að halda lagasetningarvaldinu hér innan lands. Mig langar þess vegna til þess að biðja hv. þingmann að útskýra þessi orð sín aðeins betur og hvort ég hafi þá nokkuð misskilið hann og ræðu hans.