137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:15]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Bhr) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef kosið það síðan ég tók sæti hér á þingi að tala ekki mjög oft vegna þess að mér er það ljóst að orð eru dýr og mér er það ljóst að orð geta misskilist. Ég hef fengið staðfestingu á því núna með fyrirspurn hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar sem virðist hafa lesið það í orð mín að ég teldi það allra meina bót að sækja um aðild að Evrópusambandinu og helst að ganga í það líka.

Ég vil svara því til ef ég get tekið allan vafa og hroll úr huga þingmannsins að ég er fylgjandi aðildarviðræðum við Evrópusambandið vegna þess að ég tel að þær séu hollar fyrir okkur. Ég tel að það sé hollt fyrir okkur sem þjóð að ræða stærstu mál samtímans. Aðild að Evrópusambandinu er eitthvað sem kemur út úr þeim viðræðum okkar á milli, aðildarviðræðum við Evrópusambandið að (Forseti hringir.) loknu því ferli.