137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:16]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að hv. þingmaður tekur ekki oft til máls og þess vegna gat ég ekki látið þetta tækifæri hjá líða til þess að fá fram svona einstakar skoðanir. Ég gat ekki betur skilið þingmanninn þegar hann var einmitt að ræða um spillinguna en að í því væri fólgin einhvers konar lausn fyrir Íslendinga að fara í þessar aðildarviðræður. En ef ég hef misskilið það biðst ég bara velvirðingar á því.

Ég hef aðra spurningu sem mig langar til þess að beina að hv. þingmanni. Hér hefur komið fram í dag að í umræðunni um þessar aðildarviðræður hefur verið haldið til hliðar gögnum sem mundu breyta, að mínu mati, afstöðu margra til þessa svo mjög umdeilda máls og þá er ég að vísa í skýrsluna sem Bændasamtökin hafa verið að ræða um og segja að (Forseti hringir.) landbúnaður þjóðarinnar muni kom mjög illa út úr þessu jafnvel þó að hann fái sömu tilhliðranir og (Forseti hringir.) Finnar fengu á sínum tíma.