137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:18]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mikið var skemmtilegt að hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir skyldi hafa sagt að ég talaði hátt. Ég held að við séum með svipaðan málróm. Mér fannst hins vegar leiðinlegra þegar hún flissaði hér yfir því og var að gera lítið úr því að þingmenn væru að brjóta stjórnarskrá. Kannski áttar hv. þingmaður sig ekki á því að við skrifum hér undir stjórnarskrárbundin heit er við setjumst á Alþingi og verðum að bera virðingu fyrir stjórnarskránni okkar, hv. þingmaður.

Varðandi þessa skýrslu. Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir er formaður landbúnaðar- og sjávarútvegsnefndar … (ÓÞ: Varaformaður.) — fyrirgefðu — varaformaður ætlaði ég að segja, en ég gat rætt aðeins við hv. þm. Sigurð Inga Jóhannsson sem er fulltrúi okkar í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Hann staðfestir að það sé rétt að þessi skýrsla er búin að vera aðgengileg á netinu síðan 2003. Við erum ekki að tala um 2003-skýrsluna. Við erum að tala um skýrsluna 2009 þar sem koma fram einhverjar tölulegar upplýsingar sem utanríkisráðuneytið er nú að bera fyrir sig að séu trúnaðarupplýsingar. En ef þetta eru tölulegar upplýsingar og fólk hefur forsendurnar til að reikna það út þá getur varla verið neinn trúnaðarbrestur í því að hún verði gerð opinber. Hv. þingmenn Framsóknarflokksins Sigurður Ingi Jóhannsson og Gunnar Bragi Sveinsson hafa ítrekað beðið um að þessi skýrsla verði gerð opinber, ítrekað beðið um að hún komi inn í nefndina, án árangurs. Það eru allir búnir að létta trúnaði af þessari skýrslu, Bændasamtökin og aðrir hagsmunaaðilar, en ekki utanríkisráðuneytið.

Frú forseti. Það er verið að beita okkur þvingunum. Það er enn þá verið að kúga þingið. Ég tek það aftur fram. Það var eins gott að það var ekki atkvæðagreiðsla um þetta mál í gær.