137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:20]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Vegna þess að formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar er ekki staddur í þingsal sé ég mig knúna til að bera af honum og sjálfri mér sakir um að það hafi legið einhver leynd af hálfu sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar yfir þessari skýrslu. Ég svaraði því í umræðunum hér í þinginu fyrr í dag að mér væri ekki kunnugt um þessa skýrslu. Ég hef ekki verið beðin um hana og ég er að líta þessa skýrslu fyrst augum núna um leið og aðrir nefndarmenn í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Þannig er það nú. Þetta mál var skýrt mjög vel fyrir nefndarmönnum núna fyrir stundu og ég treysti því að hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson skýri það mál betur því það er augljóst að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir misskilur þær upplýsingar sem hún hefur.

Það kom jafnframt fram í máli á fundi nefndarinnar nú í hádeginu að sú skýrsla sem legið hefur fyrir á netinu er frá árinu 2003 og því hefur ekki verið haldið fram að — það má ekki rugla þessum tveimur skýrslum saman — en þau drög að þeirri skýrslu sem eru nú til umræðu voru nánari vinna (Gripið fram í.) og framhald þeirrar vinnu sem fór fram í skýrslunni sem birt var á netinu og er frá 2003. En það hafa verið einhverjir útreikningar og tölulegar upplýsingar í þessari framhaldsvinnu sem hafa orðið þess valdandi að menn mátu það svo að bíða með að dreifa skýrslunni vegna hugsanlegra samningshagsmuna Íslands í Evrópusambandsviðræðunum, (VigH: Nú?) meðal annars með hliðsjón af hagsmunum landbúnaðarins sem liggur auðvitað verulega undir í þeirri umræðu (Gripið fram í.) og fulltrúi Bændasamtakanna við þá vinnu var sáttur við þá málsmeðferð. Meira veit ég ekki. Ég ætla ekki að taka ábyrgð á því hvernig hefur farið með þessa skýrslu því eins og ég segi þá er ég að sjá hana fyrst núna (Forseti hringir.) um leið og aðrir þingmenn og vissi ekkert af tilurð hennar.