137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:25]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Í morgun ræddum við nokkuð tilurð skýrslu sem fjallar um íslensk bú í finnsku umhverfi. Þá var mjög kallað eftir því að þessi skýrsla yrði gerð opinber og sérstaklega óskað eftir því að haldinn yrði fundur í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd til að fara yfir efni skýrslunnar. Hv. formaður nefndarinnar Atli Gíslason brást ákaflega vel við þessu, sömuleiðis utanríkisráðuneytið sem kom til fundar við okkur nú eftir hádegið og þá var okkur gerð grein fyrir efni skýrslunnar í mjög stuttu máli. Við höfum að sjálfsögðu engin tök á því að fara yfir efni hennar. Jafnframt var nokkuð rætt um það hvort halda bæri þessari skýrslu leyndri, hvort birta ætti hana opinberlega og hvernig ætti með hana að fara. Auðvitað er þessi skýrsla unnin fyrir nefnd sem starfar á vegum hæstv. utanríkisráðherra. Ég sé að hæstv. utanríkisráðherra er í salnum og þess vegna vil ég gjarnan leita eftir því hvort hæstv. utanríkisráðherra geti upplýst okkur um það hvort ætlunin sé að gera þessa skýrslu opinbera þannig að menn geti rætt efni hennar og áttað sig á því sem hún hefur í sér að bera. Ég held að það sé mjög gagnlegt fyrir umræðuna vegna þess að þessi skýrsla vakir yfir þessari umræðu og mótar hana auðvitað og það væri mjög (Forseti hringir.) slæmt ef við gætum ekki fengið að ræða hana á þeim forsendum sem hún sjálf leggur upp með.