137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:01]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur fyrir yfirgripsmikla, rökfasta og góða ræðu. Ég talaði um það um daginn að ekki væri svo langt á milli Framsóknarflokksins og Vinstri grænna í þessum meginstefnumálum. En hv. þingmaður á það sameiginlegt með þeim þingmönnum Vinstri grænna sem hafa talað í þessu máli að hv. formanni utanríkismálanefndar frátöldum að koma hér upp og lýsa sig algerlega andsnúinn Evrópusambandinu og í raun og veru finna því allt til foráttu. Mér finnst vinstri grænir ekki sjá neinn ljósan punkt í þessari tillögu sem liggur hér fyrir enda vantar allan eldmóðinn hjá vinstri grænum að tala fyrir þessari tillögu. Þess vegna er svo sorglegt að við skulum standa í þessum sporum hér í dag með málið svona vaxið.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún sætti sig við þau skilyrði sem eru í þessari þingsályktunartillögu varðandi ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu en ekki bindandi. Sættir þingmaðurinn sig við það að þetta verði ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem við gætum allt eins kallað þetta skoðanakönnun meðal þjóðarinnar og stjórnvöld ekki bundin af henni? Verði þessi tillaga samþykkt undir forustu Vinstri grænna í ríkisstjórn þá fer af stað ákveðið ferli sem hefur verið gert kostnaðarmat á, sem eru 1.000 milljónir. Formaður Vinstri grænna hefur sjálfur lýst því yfir að það eigi að fara með þetta með þessum hætti af því að þjóðin muni örugglega fella aðildarviðræður þegar þetta kemst í þjóðaratkvæðagreiðslu. Finnst hv. þingmanni það ekki mikil peningasóun á þeim tímum sem við lifum að eyða þessu fjármagni í þessar viðræður (Forseti hringir.) ef málið er svo fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar heim er komið?