137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:08]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ánægður með margt í ræðu hv. þingmanns og finnst hún málefnaleg. Ég hef samt tvær spurningar vegna þess að mér fannst einkenna málflutning þingmannsins að hún sagði hér nokkrum sinnum að við værum að fara í aðildarviðræður. Mig langar til að spyrja hana hvort hún geri ekki greinarmun á aðildarviðræðum og því að leggja inn umsókn vegna þess að það er það sem meiri hluti utanríkismálanefndar leggur til, reyndar hv. þingmaður með fyrirvara. Í mínum huga felast í því mjög skýr skilaboð að leggja inn umsókn. Það þýðir í rauninni að þú ert að sækja um inngöngu en ekki að ræða við Evrópusambandið um hvað við getum fengið vegna þess að ég tel að það sé nefnilega misskilningur í umræðunni um að þetta séu einhvers konar könnunarviðræður.

Að öðru leyti vil ég beina spurningu til þingmannsins af því að hún nefndi að umræðan hefði verið yfirdrifin og ég held að það sé rétt, sérstaklega í ljósi þess að tvö stærstu blöð landsins hafa tekið eindregna afstöðu með því að fara í aðildarviðræður. Telur þingmaðurinn að það muni ekki einfaldlega leiða til þess að við förum inn í Evrópusambandið vegna þess að hér á göngum Alþingis fagna samfylkingarmenn og voru þá ekki vinstri grænir í rauninni þegar þeir ákváðu að hleypa þessu út úr nefndinni, ákváðu að fara með þetta í atkvæðagreiðslu, að stíga fyrsta skrefið inn í (Forseti hringir.) Evrópusambandið sem verður ekki tekið til baka?