137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:10]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að aðildarviðræður eru allt annað en svokallaðar könnunarviðræður. Hér er einmitt verið að tala um að leggja inn umsókn til að geta farið í formlegar aðildarviðræður og sjá þannig hvort úr verður hugsanlegur aðildarsamningur sem þá er lagður fyrir þjóðina. Það er að sjálfsögðu ófrávíkjanlegt prinsipp í því að þjóðin taki þá afstöðu til þess samnings sem hugsanlega kemur út úr þessu ferli. Það held ég að hafi sýnt sig í ýmsum könnunum, svo ég vitni í það, að mjög margir vilja, eins og þeir segja, sjá samning.

Ég gæti talað lengi um það hvernig við getum farið í upplýsingaherför án samnings vegna þess að ég tel að við vitum að mörgu leyti svo margt um hvað við fáum. En það er allt annað mál.

Er þetta leiðin til að fara inn í ESB? Nei, ég held ekki. Í ýmsum löndum — og sú er auðvitað ein af persónuleikagerðum Evrópusambandsins að það vill stöðugt endurtaka þjóðaratkvæðagreiðslur ef það fær ekki þá niðurstöðu sem því hentar — en í ýmsum þessara ríkja hefur einmitt verið gríðarlegur þrýstingur frá pólitíkinni, frá fjölmiðlum, frá háskólasamfélagi og víðar um að þjóðin ákveði tiltekið — segi já við ákveðnum hlutum — en þjóðin hefur vit og ég treysti þjóðinni. Burt séð frá öllum áróðri um hvort þetta sé töfralausn á hennar málum þá treysti ég þjóðinni til að sjá í gegnum það og að hún geti þá þegar henni líður raunverulega eins og hún hafi allar upplýsingar uppi á borðum tekið endanlega afstöðu í þessu máli.