137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:12]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég eins og hv. þingmaður treysti þjóðinni. Hins vegar held ég að við verðum að átta okkur á því í þessari umræðu að þetta er ekki bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla og einn þingmaður Vinstri grænna hefur lýst því yfir, eins og ég skildi orð hans hér í ræðustól, að það er alveg sama hvað kemur úr þjóðaratkvæðagreiðslu, hann mun samt vera andvígur aðildarsamningi.

Ég óttast að þrátt fyrir góða von hv. þingmanns um að við losnum við umræðuna þá held ég að hún verði jafnvel hatrammari eftir að við höfum farið í aðildarviðræður og að fjölmiðlar og aðrir muni haga áróðri sínum þannig að við munum ekki, þau sem hræðumst mjög það skref að ganga í ESB, geta barist gegn því. (Forseti hringir.) En bara ein spurning af því að ég hef spurt þingmenn um þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-samningana. (Forseti hringir.) Er hv. þingmaður sammála þeirri þingsályktunartillögu sem ég hef lagt (Forseti hringir.) fram?