137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:13]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað berum við mörg ótta í brjósti vegna hugsanlegrar aðildar Íslands að Evrópusambandinu rétt eins og aðrir bera til hennar miklar vonir.

Ég sé bara ekki fræðilegan möguleika á því að mikill meiri hluti þingheims og stjórnmálaflokkar í landinu mundu ekki binda sig við þá niðurstöðu sem ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla mundi gefa til dæmis í því hvort ganga ætti til aðildarviðræðna.

Varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave þá hef ég sagt það oft áður og mun halda áfram að segja það að ég er mjög fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslum yfirleitt, beinu lýðræði að ég tali nú ekki um í stórum átakamálum þannig að ég væri, já, fylgjandi því að leita leiða til að setja Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslu.