137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:38]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. ræðumanni Pétri Blöndal fyrir alveg stórkostlega ræðu. Honum tekst einstaklega oft vel upp hér í þessum ræðustól.

Hann beindi til mín spurningu og ég fór aðeins yfir þetta í ræðu minni hér í dag. Raunverulega beindi hann ekki til mín spurningu heldur var hann með svipaðar hugleiðingar og ég í kjölfar þeirrar ræðu sem ég hef flutt hér varðandi það hvort hér eigi sér stað brot á stjórnarskránni.

Ég fór yfir það í dag og ætla að fara aftur yfir það að í þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar, sem hálfur hluti Vinstri grænna styður í ríkisstjórninni, stendur skýrum stöfum, svo þetta sé nú einu sinni enn tekið fram hér að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að ESB. Þetta er alveg skýrt. Það er verið að fara fram á það við Alþingi að þetta sé samþykkt með þessum hætti, að leggja inn umsókn að ESB, að framselja vald til alþjóðlegrar stofnunar. Þetta er brot á stjórnarskránni. Hér tekur það enginn upp því Samfylkingin vill ekki fara eftir stjórnarskránni því að stjórnarskráin er fyrir í Evrópuleiðangrinum og út af því er þetta vandamál hér með þessa þjóðaratkvæðagreiðslu bindandi og ráðgefandi.

Hins vegar gengur breytingartillaga mín við þessa tillögu út á það að bjarga ríkisstjórninni hér frá stjórnskipulegu slysi, að það sé hægt að fara hér leið án þess að brjóta stjórnarskrána þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ísland hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið.“

Það að hefja viðræður er allt annar hlutur en að leggja inn umsókn og þarna greinir þetta á. Þrátt fyrir það er ég að teygja mig mjög rúmt í lögskýringu á stjórnarskránni í minni tillögu, þannig að það sé alveg hér á hreinu, og raunverulega er það mjög alvarlegt að Alþingi Íslendinga sé meðvitað um að leggja hér fram þingsályktunartillögu (Forseti hringir.) til samþykktar þar sem um svo skýrt brot á stjórnarskránni er að ræða.