137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:40]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og andsvar og lögskýringu. Hún er nú lögfræðingur sem ég er ekki. Ég er eiginlega sammála henni að öllu leyti. Ég hef heyrt af því og þingmönnum hefur borist tölvubréf um það að einn ákveðinn aðili ætlar að fara í mál. Hann ætlar að kæra væntanlega hæstv. utanríkisráðherra þegar sá flýgur til Evrópu til að framkvæma vilja Alþingis eftir að þingsályktunartillagan hefur verið samþykkt.

Ég spurði að því hérna í umræðunni, ég spurði lögfræðing hér að því hvern ég ætti að kæra ef ég teldi að þetta væri brot á stjórnarskránni. Kannski getur hv. þingmaður ráðlagt mér í því hvern ég eigi að kæra ef ég mundi vilja slást í hóp þeirra sem eru ósáttir við þetta brot á stjórnarskránni.