137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:13]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. heilbrigðisráðherra talaði um að við ættum líklega eftir að vera í sama liði bráðlega. Að sjálfsögðu óska ég eftir því og býð hann hjartanlega velkominn í Framsóknarflokkinn.

En ég kann ekki við þennan málflutning af því að það er svo mikið kæruleysi að baki. Hér stendur einn af 12 aðilum framkvæmdarvaldsins. Ætlið þið að samþykkja þessa þingsályktunartillögu? Um leið og hún hefur verið samþykkt verður hann farinn að vinna á móti henni. Það er ekki trúverðugt, og sömu skoðun hefur hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að samþykkja þessa þingsályktunartillögu, bretta svo upp ermar og fara að vinna á móti ályktuninni. — Ekki leggja þetta á þjóðina, kæru ráðherrar Vinstri grænna.

En nú langar mig til að koma með aðra spurningu. Í máli hæstv. fjármálaráðherra á föstudaginn kom fram að hann hefði vitað að Vinstri grænir þyrftu eftir kosningar að afleggja kosningastefnuskrá sína varðandi Evrópusambandsaðild. Vissi hæstv. heilbrigðisráðherra af því fyrir kosningar að á stefnuskránni væri að fylgja ekki eftir andstöðu við Evrópusambandið, eins og margir frambjóðendur virðast ekki hafa vitað af fyrir kosningar?