137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:16]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það eru engir hagsmunir mikilvægari en sjálfstæði þjóðarinnar og ég tel að forsenda þess að okkur takist að verja það og styrkja í hvívetna sé tvíþætt: Gagnsæ, opin vinnubrögð og lýðræði. Í mínum huga snýst þetta mál fyrst og fremst um lýðræði. Hvað er fólk svona hrætt við? Við ætlum að láta reyna á það í lýðræðislegri atkvæðagreiðslu hvort Íslendingar vilji fá aðild að Evrópusambandinu eða ekki.

Það er alveg rétt. Ég ætla ekki að gera lítið úr athugasemdum sem komu fram um fjármunina, hvað þetta kostar mikið. En við skulum ekki gleyma því að um langt árabil hefur stór hluti þjóðarinnar verið þeirrar skoðunar að mál málanna sé að komast inn fyrir landamæri Evrópusambandsins. Þetta er staðreynd. Ég er algerlega á öndverðum meiði. En ég held að það standi lýðræðinu að mörgu leyti fyrir þrifum, og markvissum vinnubrögðum í stjórnsýslunni og pólitíkinni, að leiða þetta mál ekki til lykta í lýðræðislegri atkvæðagreiðslu.