137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra talar stöðugt um að stór hluti þjóðarinnar vilji skoða þetta. Það hefur aldrei farið fram kosning um það. Þeir sem búa úti á landi segja aðra sögu en þeir sem búa í Reykjavík, eins og hæstv. ráðherra.

Ég vil halda áfram að tala um lýðræðisást hæstv. ráðherra sem hann segir vera mikla en samt vill hann fara í þjóðaratkvæðagreiðslu sem ekki er bindandi. Þegar búið er að semja fer áróðursmaskína Evrópusambandsins á fullt við að telja fólk á að samþykkja eitthvað sem samninganefndir okkar hafa náð fram. Af hverju í ósköpunum vill hæstv. ráðherra ekki spyrja þennan drjúga hluta þjóðarinnar hvort hann vilji yfirleitt ganga inn í þetta samband sem hann er á móti eins og ég? Af hverju vill hann ekki spyrja þjóðina hvort hún vilji ganga í þetta samband eða eitthvað annað, Bandaríkin eða eitthvað svoleiðis?