137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:24]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Mikið hefur verið fjallað um þingsályktunartillögurnar sem liggja fyrir þinginu og mörgum hefur verið heitt í hamsi. Ég ber mikla virðingu fyrir þeim sem hafa komið hérna upp og lagt eitthvað til málanna sem byggist á þeirra eigin sannfæringu, hvort sem ég er sammála þeim eða ekki, vegna þess ég tel að menn séu staddir á Alþingi Íslendinga til að greiða atkvæði eftir sinni sannfæringu, ekki eftir því hvort einhver ríkisstjórn komi til með að lifa af þennan dag eða þann næsta. Ég skora á þingmenn og þá sérstaklega hæstv. heilbrigðisráðherra að greiða atkvæði um þessi mál eftir sinni sannfæringu og sinni stefnu í pólitík.

Virðulegi forseti. Ég hef fylgst með umræðum um Evrópusambandið frá því að ég byrjaði að fylgjast með pólitík. Eins og hæstv. heilbrigðisráðherra fór yfir áðan var lögfestur aðildarsamningur að EES á síðustu öld og frá þeim tíma hefur verið ljóst að við höfum verið í samstarfi við Evrópusambandið. Því hafa vissulega fylgt kostir og gallar þannig að við höfum ákveðna reynslu. Margir segja að með þeim samningi höfum við tekið upp allt það besta sem sambandið hefur upp á að bjóða en skilið eftir það versta og það sem minnst hentar okkur og okkar hagsmunum, sem vissulega eru sérstakir. Þetta ástand hefur verið í nokkur ár og vissulega hefur það nýst okkur vel. En ég hef haft þá skoðun að okkar hagsmunum sé best borgið utan Evrópusambandsins og hef aðallega byggt það á skoðun minni á landbúnaðarstefnu sambandsins og sjávarútvegsstefnu þess.

Í kjölfar þeirra atburða sem urðu við hrun bankanna sl. haust var engu að síður nauðsynlegt fyrir alla sem starfa í pólitík og alla Íslendinga að skoða hug sinn varðandi ýmsar grundvallarspurningar, þar á meðal varðandi Evrópusambandsaðild. Ég fór í gegnum slíka skoðun ásamt mínum flokki. Viðamikil vinna fór fram á vegum Sjálfstæðisflokksins við að meta hvort ástæða væri til að breyta hagsmunamatinu eða hvort breyting hafi orðið á hagsmunum Íslands að ástæða væri til að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þetta var mikil vinna á mörgum fundum. Mjög margir sjálfstæðismenn komu að þeirri vinnu og margir fræðimenn voru fengnir til skrafs og ráðagerða. Ferlið var allt saman afskaplega opið og m.a. unnið á netinu, þar sem allir Íslendingar gátu tekið þátt. Þessi vinna var vel nýtt, gríðarlega margir tóku þátt í henni en niðurstaðan var skýr: Hagsmunum Íslands er best borgið utan Evrópusambandsins. Í gegnum alla þessa vinnu sannfærðist ég um að mín upphaflega skoðun var rétt og þetta nýja hagsmunamat breytti ekki skoðun minni. Niðurstaðan er að hagsmunum Íslands er best borgið utan Evrópusambandsins. Engu að síður komst landsfundur Sjálfstæðisflokksins að þeirri niðurstöðu að ef sú staða yrði uppi á Alþingi Íslendinga að meiri hluti væri fyrir því að sækja um aðild að Evrópusambandinu þá væri algerlega ljóst að þjóðin ætti að eiga síðasta orðið. Mikið hefur verið rætt hvort, hvenær og hvernig þjóðaratkvæðagreiðsla ætti að fara fram. Þar greinir menn afskaplega mikið á.

Ég vil gera, frú forseti, að umtalsefni breytingartillögu sem lögð hefur verið fram af þeim hv. þm. Bjarna Benediktssyni og Þorgerði K. Gunnarsdóttur. Þar er til í fyrsta lagi lagt til að brott falli 1. málsl. tillögugreinarinnar en í hans staði komi, með leyfi forseta þrír nýir málsliðir sem orðist svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Ísland skuli sækja um aðild að Evrópusambandinu. Skal þjóðaratkvæðagreiðslan fara fram hið allra fyrsta og eigi síðar en innan þriggja mánaða frá samþykkt tillögu þessarar. Verði aðildarumsókn samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu skal ríkisstjórnin leggja inn umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu.“

Virðulegi forseti. Þarna er lagt til að þjóðin fái að segja sitt um það hvort lagt verði í þessa kostnaðarsömu vegferð til Brussel. Ástæðan fyrir þessari breytingartillögu er að ríkisstjórnarflokkarnir hafa ekki til þess meiri hluta og styrk að standa sjálfir að þessari þingsályktun þannig að sómi sé að og hægt að fara í þessa vegferð til Brussel til að vinna þar af einhverju viti. Ef ríkisstjórnin er klofin í málinu og veit ekki í hvorn fótinn hún á að stíga, veit ekki hvort það er raunverulegur vilji á bak við það að fara inn eða ekki, hvernig heldur þingheimur þá, virðulegi forseti, að samningaviðræðurnar komi til með að fara fram. Hvernig haldið þið að viðsemjendur okkar taki á móti samninganefndinni? Verður ekki fyrsta spurningin að gera skoðanakönnun á meðal samninganefndarmanna um hvað þeir vilja gera? Hvernig verður þetta eiginlega? Er eitthvert vit í þessu? Ég segi nei. Það er því nauðsynlegt á þessu stigi málsins að þjóðin verði spurð álits, ekki vegna þess að það eigi að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla í öllum málum heldur einfaldlega vegna þess að málið varðar mikla hagsmuni íslensku þjóðarinnar. Hér er ekki starfandi ríkisstjórn sem hefur kjark eða getu til að standa samhuga að þessu máli, frekar en mörgum öðrum málum sem er virkilega brýnt að taka á í þessu þjóðfélagi.

Síðan er það tímasetningin á aðildarumsókninni sem ætlunin er að fara með til Brussel en mikil álitaefni eru uppi um það hversu sterk samningsstaða Íslands er eins og staðan er nú í íslensku efnahagslífi. Mér er mjög til efs að það sé okkur, íslenskri þjóð, til góðs að fara í þessa miklu vegferð til Brussel í því ástandi sem við erum. Við erum, eins og margir hafa sagt hér, í vanda. Efnahagslífið er ekki sterkt og hvernig komum við til með að líta út í augum viðsemjenda okkar, óskandi eftir því með hálfum huga að fá að vera með, meðan við getum ekki verið þess fullviss að við stöndum almennilega í lappirnar hér heima? Viðsemjendur okkar munu líta á okkur eins og ölmusuþega þarna úti. Ég tel að þetta sé ekki rétti tíminn og það sé jafnframt hálffurðulegt að við stöndum hér á heitu júlíkvöldi að ræða þetta mál meðan nóg er af öðrum verkefnum að taka fyrir ríkisstjórnina.

Hvers vegna erum við í dag á Alþingi Íslendinga að ræða um Evrópusambandið? Hvers vegna erum við ekki að ræða hvernig eigi að skera niður i ríkisrekstri? Hvers vegna erum við ekki að tala um hvernig eigi að endurreisa íslensku bankana? Þetta eru tvö lykilatriði sem eru nauðsynleg til að koma efnahagslífinu aftur í samt horf. Hvers vegna, frú forseti, er lögð þessi áhersla á þetta mál og hvers vegna er þessi asi viðhafður?

Frú forseti. Ég svara spurningunni þannig að það er einfaldlega vegna þess að þetta er eina mál Samfylkingarinnar. Þetta er það eina sem tilvera Samfylkingarinnar snýst um og þess vegna stöndum við hér og eyðum tíma Alþingis í þetta mál í staðinn fyrir að tala um heimilin í landinu, endurreisn bankanna, niðurskurð í ríkisrekstri. Ég tel að þetta sé ekki rétt forgangsröðun og að tíma Alþingis og íslensku þjóðarinnar sé ekki vel varið með þessari forgangsröðun.

Virðulegi forseti. Ég hafði ætlað mér að tala hér um breytingartillögu þeirra hv. þingmanna Bjarna Benediktssonar og Þorgerðar K. Gunnarsdóttur og ég hef farið yfir fyrri hluta tillögunnar, sem snýr að því að þjóðin hafi fyrsta orðið um það hvort við förum í þessa vegferð eður ei. Af andstæðingum tillögunnar hefur því verið fleygt að þetta sé kosning um að kjósa um að kjósa um að fara kannski til Brussel, sem er að sjálfsögðu hártogun, svo að ég noti það orð aftur þrátt fyrir að hv. þm. Þráinn Bertelsson hafi ekki verið hrifinn af því þegar ég beindi því orði að honum.

Virðulegi forseti. Ég er einfaldlega ekki sammála því að þetta sé tímasóun enda segir í tillögunni að þjóðaratkvæðagreiðslan skuli fara fram innan þriggja mánaða frá því að hún hefur verið samþykkt. Það er ansi þröngur tímarammi sem þarna er veittur vegna þess að stuttur tími er til stefnu og engin ástæða til að velta sér upp úr þessu lengur en þörf er á. Tillagan er með innbyggt að þetta taki snöggt af og taki ekki langan tíma í meðferð, þannig að ég vísa mótrökum andstæðinga tillögunnar algerlega á bug og tel að ekki þurfi að ræða þau frekar.

Virðulegi forseti. Í seinni hluta breytingartillögunnar kemur fram, með leyfi forseta, að við bætist tveir nýir málsliðir sem svo hljóða, með leyfi forseta:

„Náist aðildarsamningur milli Íslands og Evrópusambandsins skal ríkisstjórnin þegar í stað ráðast í að gera nauðsynlegar breytingar á stjórnarskrá, og eftir atvikum öðrum lögum, sem af aðild leiðir. Að því loknu skal aðildarsamningurinn borinn undir Alþingi til staðfestingar og að henni fenginni skal ríkisstjórnin efna til bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um væntanlegan aðildarsamning.“

Virðulegi forseti. Þarna kristallast grundvallarmunur á því hvaða afstöðu þingmenn hafa til þjóðaratkvæðagreiðslna. Þarna er lagt til að sköpuð verði sú umgerð að þjóðin fái í raun að hafa síðasta orðið, ekki eingöngu fyrsta orðið eins og fyrri hluti breytingartillögunnar kveður á um, heldur einnig síðasta orðið.

Í tillögu ríkisstjórnarflokkanna, eða hluta af ríkisstjórnarflokkunum, er gert ráð fyrir að það verði eingöngu ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla sem muni fara fram um hinn endanlega aðildarsamning, náist hann einhvern tíma á blað. Það tel ég ekki fullnægjandi og þess vegna mun ég styðja þessa breytingartillögu. Það er einfaldlega ekki boðlegt að reyna að sannfæra þjóðina um að hún fái að segja sitt lokaorð, eins og ríkisstjórnarflokkarnir eru að reyna að gera, án þess að niðurstaða kosningarinnar hafi nokkurt gildi. Án þess að niðurstaðan sé bindandi fyrir þingið. Þetta er einfaldlega skrípaleikur og ég skil ekki, frú forseti, þá þingmenn sem hafa talað af ástríðuhita og miklum þunga um lýðræðið, gagnsæi o.s.frv. í þessari umfjöllun en ætla svo að greiða atkvæði gegn þeim breytingum sem lagðar eru til. Ég tel fullvíst að það verði stór meiri hluti hér á þinginu fyrir þeim og þá sérstaklega þeirri síðari ef, frú forseti, menn standa við sannfæringu sína.

Menn eiga ekkert að vera feimnir við að standa við sannfæringu sína vegna þess að allir þeir sem sitja á hinu háa Alþingi í umboði þjóðarinnar hafa sótt umboð sitt til kjósenda og hafa staðið úti í sínu kjördæmi og talað fyrir stefnu síns flokks og sínum hugsjónum. Það er því grátlegt að horfa upp á að ýmsir þeirra bera svo litla virðingu fyrir stefnu flokks síns, fyrir sinni eigin sannfæringu og þar með í rauninni fyrir sjálfum sér, að þeir geta ekki einu sinni staðið í lappirnar og kosið eftir eigin sannfæringu. Það er grátlegt, frú forseti, og ég treysti því að við horfum ekki upp á það í raun þegar greidd verða atkvæði um þessar tillögur hér í þinginu. Ég hef þá trú á íslenskum alþingismönnum að þeir hafi bein í nefinu og kjark til að gera eins og þeirra eigin þeirra sannfæring býður þeim.

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að ég hef talið að hagsmunum okkar Íslendinga sé betur borgið utan Evrópusambandsins en innan hefur aðallega grundvallast á nokkrum málaflokkum. Það eru sjónarmið varðandi landbúnaðinn, sjávarútveginn, orkuauðlindir landsins, fullveldið, atvinnuleysistölur úr Evrópu og svo það hvert Evrópusambandið stefnir og hvernig það muni þróast í náinni framtíð.

Mikið hefur verið fjallað um landbúnað hér í dag og ég fagna því sérstaklega. Reyndar er tilefnið að ríkisstjórnarflokkarnir reyndu að halda leyndri skýrslu sem var gerð um það hvernig finnska leiðin mundi koma út fyrir Íslendinga. Í Morgunblaðinu í dag birtist grein eftir Harald Benediktsson, sem er formaður Bændasamtaka Íslands.

Þar segir hann m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Fyrir fáar starfsstéttir skiptir sá dagur, sem ákveðið verður að sækja um aðild að ESB, meira máli en bændur.“

Síðan segir á öðrum stað, með leyfi forseta:

„Þau sem styðja aðildarumsókn eru að senda bændum skilaboð um að huga sem minnst að framtíðaruppbyggingu búa sinna. Skipuleggja undanhaldið.“

Já, virðulegi forseti, formaður Bændasamtaka Íslands hefur ekki mikla löngun til þess að Ísland gangi í Evrópusambandið og það er rétt mat hjá honum, út frá þeim hagsmunum bænda sem honum ber að gæta. Það liggur fyrir að tekjur búa munu dragast verulega saman vegna lækkandi afurðaverðs og verðlækkana til bænda verði gengið í Evrópusambandið. Jafnframt er að finna á vef Bændasamtaka Íslands umfjöllun um hvernig landbúnaður hefur verið tryggður í þessari Evróputillögu stjórnarflokkanna.

Í því áliti segir m.a., með leyfi forseta:

„Þótt lögð sé áhersla á mikilvægi íslensks landbúnaðar í umsögn nefndarinnar er vart hægt að segja að slegnir séu þeir varnaglar sem veitt gætu landbúnaðinum skjól ef til aðildar kæmi.“

Frú forseti. Mér þykir þetta afskaplega athyglisvert. Þetta er rétt ályktun hjá Bændasamtökunum. Hvers vegna er ekki fjallað um það og settir einhverjir varnaglar vegna landbúnaðarins í tillögunni sem stjórnarflokkarnir leggja fram? Getur það verið vegna þess að stjórnarflokkarnir — og þá er ég aðallega að tala um Samfylkinguna vegna þess að þetta er hennar mál — séu þegar farnir að forgangsraða þeim hagsmunum íslensku þjóðarinnar sem þeir eru tilbúnir að fórna? Getur verið að þeir aðilar innan ríkisstjórnarinnar sem langar afskaplega mikið að ganga í Evrópusambandið séu tilbúnir að fórna hagsmunum íslensks landbúnaðar í samningaviðræðum? Er það ástæðan fyrir því að ekki eru settir varnaglar í tillöguna? Er það gert til þess að einhver leið sé út? Ég tel miklar líkur á að svo sé og tel því nauðsynlegt að ræða ítarlega hér á hinu háa Alþingi um hagsmuni landbúnaðarins og mikilvægi hans fyrir íslenskt þjóðarbú.

Í kjölfar bankahrunsins í október kom í ljós mikill áhugi á íslenskum landbúnaði í samfélaginu. Haldnar voru margar ráðstefnur og fundir í kjölfar bankahrunsins um hvaða tækifæri við höfum í íslenskum landbúnaði. Það var gríðarlega góð og skemmtileg umræða. Ég man sérstaklega eftir málþingi á Skógum í Rangárþingi eystra, sem hv. þm. Árni Johnsen stóð fyrir, þar sem rætt var um tækifærin varðandi byggrækt, hveitirækt og lífdísil, repjuna þar af leiðandi, að ógleymdum tækifærunum sem felast í því stóra fyrirtæki sem heitir Orf líftækni og vinnur að því að vinna efni til lyfjagerðar úr erfðabreyttu byggi. Mikil tækifæri liggja víða, líka í landbúnaðinum. Þess vegna er full þörf á að standa vörð um íslenskan landbúnað og hagsmuni hans í þessari vinnu og þessari vegferð sem ríkisstjórnarflokkarnir eru að senda okkur í.

Ég hef ekki heyrt betur en að Vinstri grænir hafi mikinn áhuga á íslenskum landbúnaði og beri hagsmuni hans fyrir brjósti. Þess vegna bið ég þá enn og aftur að íhuga á hvaða vegferð þeir eru, hvort þeir ætli sér virkilega að láta Samfylkinguna stýra sér inn í að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Er það virkilega í samræmi við stefnu og yfirlýsingar Vinstri grænna hér fyrir kosningar?

Virðulegi forseti. Það þarf hver og einn þingmaður að eiga það við samvisku sína hvernig hann kýs en ég skora enn og aftur á þingmenn að fylgja sinni sannfæringu.

Virðulegi forseti. Varðandi hagsmuni sjávarútvegsins er náttúrlega gríðarlega mikilvægt að öll umgjörð íslensks sjávarútvegs sé stöðug vegna þess að sjávarútvegurinn er okkar helsta gjaldeyrisskapandi atvinnugrein, hefur verið það og mun verða um ókomna tíð ef okkur auðnast að standa vörð um þessa miklu auðlind. Vissulega þekkjum við Evrópusambandið eins og það er í dag en sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins er til endurskoðunar og við höfum ekki hugmynd um í hvaða átt hún muni þróast. Þó er algjörlega ljóst, þrátt fyrir yfirlýsingar ýmissa talsmanna aðildar að ESB, að það verða ekki Íslendingar sem koma til með að ráða því hvernig Evrópusambandið verður og við munum því miður ekki ráða því hvernig sjávarútvegsstefna þess verður.

Virðulegi forseti. Tími minn er að renna út og það eru afskaplega mörg atriði sem ég hef ekki náð að koma inn á hér í dag. En ég vil einfaldlega enda á því að segja að stærsta verkefni íslenskra stjórnmálamanna er að vekja von í brjóstum Íslendinga um að hér sé björt framtíð og að við komum til með að byggja hana á þeim kostum sem við höfum, orkunni okkar, auðlindunum til lands og sjávar, hvort sem er vatn, fiskur, menntun starfsmanna okkar, sterkt lífeyriskerfi eða mannauðurinn sem byggir þetta land. Þetta verða okkar sterkustu vopn í kreppunni og koma okkur upp úr efnahagslægðinni sem við erum stödd í. Á þessu eigum við að byggja okkar sókn. Við eigum að treysta á okkur sjálf og standa með okkur sjálfum. Við eigum að standa með Íslandi. Það er stærsta verkefni íslenskra stjórnmálamanna og til þess erum við kosin á Alþingi.

Hér stendur hópur fólks fyrir utan Alþingishúsið og hrópar allan daginn: Áfram Ísland. Ég segi (Forseti hringir.) einfaldlega: Áfram Ísland. Við höldum áfram og við komum til með að byggja á okkar landkostum (Forseti hringir.) það sem eftir er.