137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. En það er eitt sem ég var ekki alveg sáttur við. Hún sagði að Evrópusambandið væri með lélega fiskveiðistefnu og hún hafði enga trú á því að við gætum leiðbeint þeim. Ég hef hins vegar trú á því að við getum leiðbeint þeim. Okkur hefur tekist, af því að við verðum, við neyðumst til að vernda fiskstofnana við Ísland kannski ekki eins vel og flestir vildu en vernda þá samt engu að síður. Það er talið að fiskveiðistefna Íslendinga sé með þeim betri og þess vegna gætum við kennt Evrópusambandinu utan þess og innan. Við gætum kennt því ef við værum aðilar og við gætum líka kennt því ef við erum utan. Þess vegna er ég ekki alveg sammála því að við getum ekki kennt Evrópusambandinu.

En Evrópusambandið getur breytt fiskveiðistefnunni í þessa veru og ætlar að gera það. Það stendur til. Það þýðir líka að það getur breytt henni til baka. Það þýðir að eftir tíu ár þá vantar ESB fisk og Spánverja langar til að veiða fisk við Ísland og þá breytir sambandið hreinlega stefnunni til baka og þá eru Íslendingar pikkfastir inni og geta ekki annað en hlýtt.