137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:50]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég nefndi í örfáum orðum mínum hér áðan að ég hefði haft hug á því að beina tilteknum spurningum til hæstv. utanríkisráðherra, spurningum sem ég tel að séu afskaplega mikilvægar í ljósi þess hvernig þessi umræða hefur þróast og einmitt í ljósi þess að hæstv. utanríkisráðherra er sá ráðherra sem mun, verði tillaga ríkisstjórnarinnar samþykkt, hafa forræði og fara fyrir samningaviðræðum Íslendinga í þessum málum. Þess vegna er mikilvægt að hæstv. utanríkisráðherra komi inn í þessa umræðu með þeim hætti að unnt sé að spyrja hann hvernig hann túlki ýmsa liði til dæmis í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar sem skipta verulegu máli þegar kemur að samningaviðræðunum.

Spurningar mínar að hæstv. utanríkisráðherra fjarstöddum verða fyrst og fremst retórískar eða ég kem til með að nefna þau atriði sem ég hef áhuga á að fá upplýsingar um frá utanríkisráðherra og ef aðrir hv. þingmenn geta upplýst mig um það hvernig þeir skilja þetta þá er það gagnlegt. En engu að síður er nauðsynlegt áður en þessari umræðu lýkur að hæstv. utanríkisráðherra hafi með skýrum hætti tjáð sig um þá þætti.

Þessi atriði sem ég ætla að nefna eru kannski fyrst og fremst þau sem snúa að þeim sjónarmiðum sem koma fram í áliti meiri hlutans og hafa hér í umræðunni ýmist verið kölluð skilyrði, samningsmarkmið, leiðbeiningar eða hvaða orð hafa verið notuð. Það er ekki orðhengilsháttur af minni hálfu að spyrja um þetta vegna þess að þetta er lykilatriði. Það er lykilatriði ef svo færi að gengið yrði til samningaviðræðna við Evrópusambandið um aðild Íslands að það liggi fyrir hvort þeir sem fara með samningsumboðið fyrir Íslands hönd líti svo á að samþykkt Alþingis setji þeim skilyrði, setji þeim markmið eða hvort aðeins sé um leiðbeiningar að ræða. Þetta skiptir grundvallarmáli. Ég fer ekki nánar út í þetta, hæstv. forseti, að svo stöddu en áskil mér rétt til þess síðar í þessari umræðu að beina spurningum í þessa veru í átt til hæstv. utanríkisráðherra sem ekki er staddur hér nú.

Annað atriði sem ég ætlaði að víkja að varðandi hæstv. utanríkisráðherra var einfaldlega að fá skilning hans á því hvort um væri að ræða alvörusamningaviðræður við Evrópusambandið um aðild Íslands, ef tillaga ríkisstjórnarinnar nær fram að ganga, eða hvort einungis sé um að ræða einhvers konar þreifingar eða könnunarviðræður svona til þess að sjá hvað sé í pakkanum og athuga málin, því að í máli þeirra sem hafa lýst sig fylgjandi þessari tillögu hefur það alls ekki verið ljóst hvort það er það sem þeir telja sig vera að samþykkja. Sumir hv. þingmenn hafa talað skýrt um það að tillaga ríkisstjórnarinnar feli það í sér að verið sé að leita alvörusamninga við Evrópusambandið með það að markmiði að Ísland verði aðili að sambandinu. Aðrir hv. þingmenn, reyndar sennilega fleiri, hafa talað á þann veg að hér sé einungis um að ræða einhvers konar þreifingar, einhvers konar könnunarviðræður bara svona til þess að sjá hvað sé í boði hjá Evrópusambandinu, hvernig menn ætli að bregðast við hinum og þessum kröfum okkar.

Það er mikilvægt að það komi fram áður en þessari umræðu lýkur hvernig þeir eða sá kannski fyrst og fremst sem á að fara fyrir samninganefnd Íslands og hefur stjórnskipulega það hlutverk að leiða samningaviðræður við önnur lönd og alþjóðastofnanir, þ.e. hvernig hann skilur það, hvort hann telji að hann sé að fara í einhvers konar þreifingar, einhvers konar könnunarviðræður, einhvers konar leiðangur til þess að skoða hvaða kostir séu í boði, svona einhvers konar rannsóknarferð eða einhvers konar athugun. Það skiptir máli að það komi fram ef það er skilningur hæstv. utanríkisráðherra eða hvort það er skilningur hans að með því að samþykkja þessa tillögu sé Alþingi að stefna að aðild að Evrópusambandinu, að stefna að aðild, því að auðvitað er sá sem sækir um aðild að alþjóðasamtökum eða yfirþjóðlegri stofnun að sækja um aðild. Ef hann hefur umræður eða viðræður með því að senda inn umsóknarbeiðni þá er hann að sækja um aðild. Hann er ekki bara að fara í einhverjar þreifingar. Hann er ekki bara að gá hvað sé í pakkanum. Hann er ekki bara að skoða hvað sé í boði. Hann er að sækja um aðild að viðkomandi sambandi eins og það er. Þetta er mikilvægt að komi skýrt fram við þessa umræðu og þess vegna mun ég spyrja hæstv. utanríkisráðherra þessarar spurningar: Er um að ræða alvöru samningaviðræður með það að markmiði að ná samkomulagi eða er um það að ræða að menn séu bara svona að þreifa á Evrópusambandinu og gá svona hvað hugsanlega sé í boði hjá því? Það skiptir verulegu máli.

Að allt öðru máli. Hér í þessari umræðu hefur töluvert verið fjallað um tillögu sjálfstæðismanna í utanríkismálanefnd, hv. þingmanna Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur og Bjarna Benediktssonar, um að farið verði í sérstaka þjóðaratkvæðagreiðslu til þess að kanna hug þjóðarinnar til þess hvort hefja eigi umsóknarferlið, hvort senda eigi inn umsókn til Evrópusambandsins. Þetta er breytingartillaga sem hv. þingmenn fluttu í utanríkismálanefnd og hún var lögð hér fyrir þingið. Eðlilega hefur þetta komið verulega mikið til umræðu hérna enda er þarna um að ræða töluvert aðra nálgun en felst í tillögu ríkisstjórnarinnar. Ég vildi bara geta þess umræðunnar vegna, vegna þess að hér hefur verið fullyrt, ekki einu sinni, ekki tvisvar og ekki þrisvar að engum nokkurn tíma hafi dottið í hug að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort sækja ætti um aðild að Evrópusambandinu. Ég held meira að segja að hér á laugardaginn hafi ég samþykkt þetta sjónarmið. En ég verð hins vegar umræðunnar vegna að geta þess að það hafa komið fram upplýsingar um að svo sé ekki. Slík atkvæðagreiðsla, þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort sækja skyldi um aðild að Evrópusambandinu fór fram í Sviss árið 2001. Þar var reyndar um það að ræða, eins og siður er í því landi og algengt, að talsverður hópur kjósenda lagði fram ósk eða kröfu um að efnt yrði til slíkrar atkvæðagreiðslu og við því var orðið. Sú atkvæðagreiðsla fór fram og niðurstaða hennar var sú að ekki var farið í aðildarviðræður. En umræðunnar vegna, vegna þess að hér hefur margt verið fullyrt í þessum málum, þá vildi ég að þetta kæmi hér skýrt fram. Því er ekki rétt sem haldið hefur verið fram að engum hafi dottið í hug áður að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort sækja skyldi um aðild að Evrópusambandinu. Það er ekki rétt. Það hefur verið gert í því ríki þar sem hefðin er ríkust fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum í Evrópu, í Sviss, og þó að hugmynd hv. þingmanna Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur og Bjarna Benediktssonar hafi ekkert endilega verið byggð á einhverri svissneskri fyrirmynd þá er þar komið fordæmi. Enda er það svo að ef menn eru á annað borð þeirrar skoðunar að þjóðaratkvæðagreiðslur séu mikilvægar til þess að kalla fram vilja þjóðarinnar í mikilvægum málefnum og ef menn eru þeirrar skoðunar, eins og ég held að allir þingmenn sem talað hafa í þessari umræðu séu sammála um, að þessi þingsályktunartillaga eða það skref að sækja um aðild að Evrópusambandinu sé mikilvægt mál — þetta eru tvær forsendur. Annars vegar er spurningin sú hvort menn eru almennt fylgjandi því að láta þjóðaratkvæðagreiðslu fara fram um mikilvæg mál og hins vegar er spurningin hvort þetta sé mikilvægt mál — ef menn eru sammála um þetta tvennt á ég afar bágt með að skilja að þeir geti ekki fallist á breytingartillögu hv. þingmanna Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur og Bjarna Benediktssonar. Þetta er mikilvægt mál. Hver höndin er upp á móti annarri hér í þinginu. Alls konar talningar eru í gangi í sambandi við atkvæði í tillögunni og ég held að að minnsta kosti sé óhætt að fullyrða að úrslit hér í þinginu í atkvæðagreiðslu verði mjög tæp á hvorn veginn sem atkvæðagreiðslan fer. Flokkar hafa mismunandi sjónarmið um þetta. Innan flokka eru mismunandi sjónarmið um þetta. Úti í þjóðfélaginu er mikill stuðningur við það að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um þessa spurningu. Skoðanakannanir sýna 75% stuðning við þá niðurstöðu og því á ég bágt með að skilja hvernig fólk sem almennt hefur lýst sig fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslum (Forseti hringir.) geti látið hjá líða að styðja tillögu ágætra þingmanna (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokksins.