137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:40]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir kom einmitt að kjarna málsins, að þetta gengur mjög illa upp. Það gengur mjög illa upp að við vitum nákvæmlega hvað í þessum málum felst og við erum með annan stjórnarflokkinn sem í það minnsta í orði, m.a. vegna þess að þeir lofuðu kjósendum sínum því, ætlar að vinna gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu. Hvaða sannfæring er í því og hvaða skynsemi er í því að fara í vegferð á þessum forsendum, eins og hv. þingmaður benti á eftir hádegi á morgun þegar menn eru búnir að klára leikritið og eru búnir að láta Samfylkinguna fá það sem þeir vilja? Fyrir hverju ætla Vinstri grænir að berjast eftir að þetta mál er komið á rekspöl? Þá ætla þeir að vinna gegn því að Ísland verði aðili að Evrópusambandinu. Hafið þið heyrt um eitthvað sambærilegt?