137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:41]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mergurinn málsins. Ég held að ráðherrar Vinstri grænna viti ekki hvaða ábyrgð þeir bera með því að sitja í ríkisstjórn. Þeir hafa komið upp, hæstv. heilbrigðisráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og lýst því yfir að þeir ætli að vinna strax á móti þessu verði tillagan samþykkt. Það er alveg með ólíkindum og fáheyrt að aðilar að ríkisstjórn Íslands, framkvæmdarvaldinu, bíði í þinginu eftir atkvæðagreiðslu sem að öllum líkindum nær í gegn, að þessi aðildarumsóknartillaga verði samþykkt. Vita þeir ekki hver ábyrgðin er? Þetta er afar einkennilegt og þetta er afar veikt fyrir ríkisstjórnina og þetta eru afar undarleg vinnubrögð. Ég undanskil þingmenn Vinstri grænna sem ætla að greiða atkvæði á móti þessari tillögu en þetta eru vinnubrögð sem eru fáheyrð.

Ég spyr þingmanninn á ný: Telur hann að Íslendingar uppfylli Kaupmannahafnarsamkomulagið og telur hann að við séum fær til að fara inn á téðum forsendum?