137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:50]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég segja það að mér finnst — ég fór yfir það í ræðu minni — að það að Borgarahreyfingin skyldi benda á hin augljósu tengsl á milli Icesave og Evrópusambandsumræðna sé algerlega til fyrirmyndar.

Þegar hv. þingmaður spyr hvað sé hægt að fá fyrir milljarð í heilbrigðiskerfinu þá er af mjög mörgu að taka. Það er nefnilega þannig að þegar maður er í því eftirsóknarverða hlutverki að vera heilbrigðisráðherra að þá er það þess eðlis að maður getur alltaf gert betur og það er alltaf hægt að finna verkefni. Einn milljarður, ef ég man rétt, ætli það sé ekki 30% af allri heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, einn þriðji af því. Ég veit ekki hvað mörg hjúkrunarheimili á Djúpavogi þetta eru. En við erum að tala um að þetta eru alveg gríðarlega mörg slík. Ég veit að hv. þingmaður (Forseti hringir.) er mikill baráttumaður fyrir sitt kjördæmi. Þetta eru ansi margar heilbrigðisstofnanir í hans kjördæmi.