137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[21:04]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður er fastur í skilyrðum Framsóknarflokksins. Ég verð þá að minna hv. þingmann á að því hefur verið lýst í ræðu á hinu háa Alþingi hvernig gerð var tilraun til þess á flokksþingi Framsóknarflokksins að fella úr landsfundarflokksþingsályktun þar sem fjallað er um samningsmarkmið undir kaflaheitinu Fyrstu skref. Það kom fram tillaga um það frá hv. þingmanni sem nú er þingflokksformaður í salnum. Það var fellt. (GBS: Það er ekki rétt.) Jú, það var fellt. (Gripið fram í.) Ég meina, það var forveri hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar sem lýsti þessu í ræðu hérna. Ég get látið hann fá útskrift af ræðunni. Því var lýst hvernig hv. þingmaður lagði til að orðinu „markmið“ yrði breytt í „skilyrði“. Það var samþykkt.

Síðan var önnur kaflafyrirsögn sem hét Fyrstu skref þar sem segir: Þessi samningsmarkmið ásamt ýmsum öðrum skulu lögð til grundvallar. Það var líka gerð tillaga um að fella það brott og setja orðið „skilyrði“ en það var fellt þannig að það er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hefur komist að að þessi skilyrði eiga að vera samningsmarkmið sem eru lögð til grundvallar. (VigH: Framsóknartúlkun.) En það er nú annað.

Ég kem aðallega upp til að svara hv. þingmanni því hversu lengi við verðum að uppfylla Maastricht-skilyrðin. Hv. þingmaður veit að ég er bjartsýnn maður. Það er líka hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson sem eins og þing veit er fyrrverandi efnahagsráðgjafi minn. Hann telur að það séu sjö ár. Reynsla mín er sú að það eigi að deila í með svona tveimur að því er hann segir og bæta við kannski einum þannig að ég mundi segja fjögur til fimm ár.